Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fimm norræn félög vilja löggjöf er heimilar dánaraðstoð

27.01.2021 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Fimm norræn félög um dánaraðstoð hvetja ríkisstjórnir á Norðurlöndum til að grípa til ráðstafana svo íbúar landanna hafi með löglegum hætti val um fá læknisfræðilega aðstoð við að deyja.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu kenndri við Helsinki sem félögin sendu frá sér í dag. Þar segir að fólk eigi að geta forðast óþarfa og óbærilega þjáningu með því að velja þessa leið sjálfviljugt að vel ígrunduðu máli.

Félögin eru Exitus Ry í Finnlandi, sænska félagið Rätten Till en Värdig Död, Foreningen Retten til en Verdig Død í Noregi, Ret til at dø í Danmörku og íslenska félagið Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð.

Eitt af markmiðum íslenska félagsins er að vinna að því að slík löggjöf verði samþykkt með ströngum skilyrðum og forsvarsfólk þess álítur að þar sé hluti mannréttinda á ferð.

Félögin fullyrða að þeirri skoðun hafa vaxið fylgi um heim allan að fólk eigi að fá að velja hvenær og hvernig það deyi, sé það óbærilega þjáð, þrátt fyrir að til sé líknandi meðferð.

Tækju Norðurlöndin ákvörðun um að lögleiða dánaraðstoð, segja félögin að þau fetuðu í fótspor tuttugu landa eða ríkja sem þegar hafa leyft það.

Ekkert Norðurlandanna heimilar dánaraðstoð með beinum hætti en það gera til að mynda Belgía, Holland, Kanada og Lúxemborg.

Að sögn Ingridar Kuhlman formanns Lífsvirðingar eru löggjafarþing Norðurlandanna á svipuðum stað varðandi viðhorf til dánaraðstoðar. Hún segir umræðuna lengst komna í Finnlandi og kveðst búast við að þar verði fyrst lagt fram frumvarp um dánaraðstoð. 

Hún segir stuðning lækna fara vaxandi í löndunum í kringum okkur og kallar eftir nýrri könnun um viðhorf íslenskra lækna og hjúkrunarfólks til dánaraðstoðar. Slík könnun hafi verið gerð síðast árið 2010 hér á landi.  

Læknisaðstoð við sjálfsvíg er heimil í einu fylkja Ástralíu, Sviss og í tíu ríkjum Bandaríkjanna. Víða hefur einnig verið lögfestur réttur til að hafna læknisaðstoð, til að mynda í Síle og á Írlandi. 

Fréttin var uppfærð klukkan 12:34.