Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ESB krefst þess að fá AstraZeneca-skammta frá Bretlandi

27.01.2021 - 20:06
FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Evrópusambandið krefst þess nú að lyfjafyrirtækið AstraZeneca afhendi þá skammta af bóluefni við COVID-19 sem samið hefur verið um. Anni verksmiðjur innan ESB ekki eftirspurn, verði bóluefnið að koma annars staðar frá. Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins segir að ESB krefjist þess að fá skammta frá breskum verksmiðjum fyrirtækisins.

Miklar tafir á framleiðslu í Hollandi og Belgíu

Fyrirtækið tilkynnti um helgina að vegna mikilla tafa í framleiðslu á bóluefninu gæti það ekki afhent það magn sem samningar við Evrópusambandið kveða á um. Talið er að skammtarnir verði 60 prósentum færri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Forsvarsmenn AstraZeneca segja að breytingar á afhendingaráætlun fyrirtækisins megi rekja til framleiðslutafa í verksmiðjum sem eru staðsettar innan Evrópusambandsins, í Hollandi og Belgíu. Evrópusambandið segir fyrirtækið þurfa að bæta upp fyrir skortinn með því að afhenda Evrópusambandsríkjum skammta sem eru framleiddir annars staðar. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins virðast deilurnar aðallega snúast um það hvort Evrópusambandið eigi eitt að taka á sig skellinn sem hlýst af framleiðsluvandanum í Hollandi og Belgíu. 

Ólík túlkun á samningnum

Pascal Soriot, framkvæmdastjóri AstraZeneca, hefur sagt að fyrirtækið líti svo á að það sé skuldbundið til að framleiða bóluefnið eins hratt og unnt er, en að það sé ekki bundið af ákveðnum skammtafjölda. Hann hefur einnig bent á að Bretland hafi verið miklu fyrr til en Evrópusambandið að ganga frá samningum við AstraZeneca og því hafi gefist tími til að ganga frá öllum lausum endum í samningum við Bretland. Ekki virðast vera sérstakar tafir á framleiðslunni þar.

Samningamenn Evrópusambandsins furða sig á því að aðildarríkin fái ekki að njóta góðs af hraðri framleiðslu fyrirtækisins í Bretlandi. Breska ríkisútvarpið hefur það eftir embættismönnum innan ESB að fjárfesting sambandsins í AstraZeneca hafi meðal annars farið í að efla framleiðslugetu verksmiðja í Bretlandi. Evrópusambandið hafni ummælum Soriot um að fyrirtækið sé ekki bundið af framleiðslumagni. Evrópusambandið samþykki heldur ekki að fyrirtækið líti svo á að það geti fylgt lögmáli um að fyrstir-komi-fyrstir-fái.