Bjargráðasjóður hefur greittt út 442 milljónir króna í styrki úr Bjargráðasjóði vegna mikils kal- og girðingatjóns veturinn 2019 til 2020. Alls bárust 285 umsóknir og fengu 255 styrk.
Kaltjónið olli mikilli uppskerurýrnum í fyrrasumar og verulegum kostnaði við endurræktun og fóðurkaup. Þá varð líka umtalsvert girðingatjón vegna snjóþyngsla.
Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu kemur fram að greiddir séu styrkir fyrir að meðaltali um helmingi tjónsins. Alls hafi verið sótt um styrki vegna kaltjóns á 4,776 hekturum ræktarlands auk tjóns á tæplega 222 kílómetrum af girðingum.
Alls námu styrkir til 183 umsækjenda vegna kaltjóns 381,4 milljónum króna og styrkir vegna girðingatjóns til 72 umsækjenda 60,6 milljónum króna.