Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja að ríkið bregðist við samgönguvanda í Fjallabyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjarráð Fjallabyggðar skorar á ríkisvaldið að hefjast handa við undirbúning að úrbótum í samgöngumálum sveitarfélagsins. Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarvegur hafa verið mikið lokaðir að undanförnu.

Allt lokað í 24 daga

Lokanir og óvissustig vegna snjóflóðahættu hafa valdið því að samgöngur til og frá Fjallabyggð hafa raskast mikið undanfarna daga. Það sama átti við síðasta vetur en þá lokaði vegurinn um Ólafsfjarðarmúla 24 sinnum í samtals 320 klukkustundir og Siglufjarðarvegur 52 sinnum í samtals 866 klukkustundir. 

„Með öllu óásættanlegt“

Staðan var rædd á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í morgun sem ályktaði um málið.  „Vegna lokana nú sem og ítrekaðra lokana á síðasta vetri vill bæjarráð Fjallabyggðar leggja á það ríka áherslu að nú þegar verði brugðist við af hálfu ríkisvaldsins, þess aðila sem ber ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi samgangna. Það er með öllu óásættanlegt að framundan séu, ef ekkert er að gert og áætlunum ekki breytt, áratugir án úrbóta í samgöngumálum sveitarfélagsins. Þar er vísað til fyrirliggjandi samgönguáætlunar og þess að ríkisvaldið hefur með áætluninni markað þá stefnu að einungis skuli unnið að einum jarðgöngum á hverjum tíma,“ segir í bókun bæjarráðs.

Leggur ráðið mikla áherslu á að stigin verði skref í átt að betri samgöngum til og frá bænum.  „Bæjarráð leggur á það ríka áherslu að nú þegar verði, með skýrum hætti, hafist handa við undirbúning framkvæmda sem nauðsynlegar eru til að leysa af hólmi, annars vegar veginn um Ólafsfjarðarmúla og hins vegar veginn um Almenninga.“

Óboðlegar samgöngur í nútímasamfélagi

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, tjáði sig um málið í síðustu viku þegar samgöngur til og frá bænum höfðu verið lamaðar í um þrjá sólarhringa. „Það er ekki svo að það væsi um fólk. Hér er matur í búðum og annað og því er reddað ef það breytist. En það hljóta allir að gera sé það ljóst að vera lokaður inni í raun án bjarga sem þarf ef eitthvað kemur upp á, það er óþægilegt. Og mitt mat að í nútímasamfélagi þá bara einfaldlega gangi það ekki,“ sagði Elías.  

Lausnin felist í nýjum jarðgöngum

Elías segir lausnina fólgna í því að gera jarðgöng. „Það sem er til ráða er einfaldlega að fara í jarðgangagerð hér yfir í Fljótin. Og síðan Ólafsfjarðarmegin annað hvort að tvöfalda Múlagöngin og byggja svo vegskála þar sem snjóflóðahættusvæðið er. Eða, sem er skynsamlegra og ódýrara, að fara í göng frá Ólafsfirði beint yfir á Dalvík.“