Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skoskt sjálfstæði, Brexit og Covid

epa08185089 Protesters with a banner 'Independence' take part in a demonstration of Stand Up For Scotland outside the Scottish Parliament at Holyrood, Edinburgh, Scotland, Britain, 01 February 2020, a day after Britain has officially left the EU.  EPA-EFE/ROBERT PERRY
Skoskir sjálfstæðissinnar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Skoski þjóðarflokkurinn miðar á sjálfstæði Skotlands sem Skotar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2014. Þar með virtist spurningunni svarað um ókomna áratugi. En Skotar eru ósáttir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sú breyting feli í sér forsendubrest en þeir glíma við óvilja bresku stjórnarinnar um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Klár niðurstaða 2014

Úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslu Skota 2014 um sjálfstæði voru nokkuð afgerandi: 55 prósent á móti sjálfstæðu Skotlandi, 45 prósent hlynnt því. Skoski þjóðarflokkurinn er eini flokkurinn sem berst fyrir sjálfstæði. Kannanir sýna að flokkurinn nýtur að hluta stuðnings Skota sem eru einfaldlega hallir undir önnur stefnumál flokksins en sjálfstæði. En líka að yfir helmingur Skota styður nú sjálfstæði og hefur gert um hríð.

Skoski þjóðarflokkurinn vill samt aðra þjóðaratkvæðagreiðslu

Það er því ekki endilega samasemmerki milli sjálfstæðisstefnu flokksins og annarra mála í hugum kjósenda. En til að taka af öll tvímæli: flokkurinn hefur nú lýst því yfir að hann muni berjast fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann vinnur meirihluta í kosningum til  skoska þingsins í maí. Síðast vantaði hann aðeins tvö þingsæti í meirihluta.

Brexit er rök Skoska þjóðarflokksins

Vandi Skoska þjóðarflokksins er að hafa þegar tapað sjálfstæðismálinu einu sinni. Réttlæting þess að kjósa aftur svo skömmu eftir síðustu atkvæðagreiðslu er að breska stjórnin hafi tekið Skota nauðuga úr ESB. Meirihluti Skota studdi áframhaldandi ESB-aðild í bresku þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016.

Breska stjórnin telur úrslitin 2014 gilda í áratugi

Vandinn er líka að það er snúið að halda skoska þjóðaratkvæðagreiðslu án samþykkis bresku stjórnarinnar. Og breska stjórnin telur málið hafa verið afgreitt 2014. Eins og Boris Johnson forsætisráðherra sagði í viðtali í ársbyrjun: Bretar kusu um Evrópusamvinnuna 1975 og aftur 2016, nokkurn veginn hæfilegt bil milli þjóðaratkvæðagreiðslna.

Forsætisráðherra hræðist lýðræði

Nicola Sturgeon leiðtogi Skoska þjóðarflokksins tók þessa afstöðu óstinnt upp í viðtali um helgina. Forsætisráðherra væri bara hræddur við lýðræðið. Skoðanakannanir sýndu að meirihluti Skota vildi sjálfstæði.

Smuga fram hjá samþykki bresku stjórnarinnar

Samþykki bresku stjórnarinnar til að halda þjóðarafgreiðslu liggur ljóslega ekki á lausu. Það er þó möguleg smuga fram hjá þessu, sérstakt ákvæði í heimastjórnarlögunum sem heimilar Skotum að taka mál í sínar hendur við ákveðnar aðstæður. Þetta viðraði Sturgeon um helgina.

Skotar vilja ekki lenda í samskonar deilum og Katalónar

Alls ekki augljóst að þetta gangi upp og Skotar vilja helst ekki lenda í lagalegum stympingum eins og Katalónar gerðu við spænsku stjórnina við sömu aðstæður. Hið nýja útspil Sturgeons og þjóðarflokksins er þetta að leggja fram áætlun um hvernig þeir geti gert þetta. Sem er þó ekki augljóst að takist.

Covid færir heimastjórn inn í daglega lífið sem er ruglingslegra

Breska ríkjasambandið og heimastjórn landshlutanna fjögurra – Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands – er venjulega ekkert sem Bretar hnjóta um í daglega lífinu. En þeir gera það núna af því veirufaraldurinn hefur afhjúpað hversu langt sjálfstjórnin nær; að landshlutarnir geta farið sínar eigin leiðir gegn Covid. Afleiðingin er að landshlutarnir fjórir eins og hossast hver í sínum jeppa í þeirri torfæru sem Covid er. Fréttir um ólík ráð og ólíkar reglur eru vægast sagt ruglandi og vekja stöðugar spurningar og vangaveltur.

Covid ýtir undir sjálfstæðisþanka víðar en í Skotlandi

Því eru það ekki aðeins Skotar sem hugleiða sjálfstæði á yfirstandandi veirutímum. Sú hugmynd nýtur nú vaxandi fylgis á Norður-Írlandi, reyndar ekki að lýsa yfir sjálfstæði heldur að sameinast Írlandi, írska lýðveldinu. Í Wales, með sínar tvær milljónir íbúa, hafa aldrei verið jafnmargir á þeirri skoðun að sá landshluti ætti að verða sjálfstæður, þó það sé ekki meirihluti fyrir því.

Gordon Brown varar við upplausn

Gordon Brown er fyrrum leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra á árunum 2007 til 2010. Skotinn Brown barðist ötullega fyrir ríkjasambandinu í atkvæðagreiðslunni 2014 og gerir enn. Hann sagði í blaðagrein eftir yfirlýsingu Skoska þjóðarflokksins um helgina að upplausn gæti blasað við Bretlandi.

Samráð er leiðin, ekki sjálfstæði

Í viðtali sagði Brown að á veirutímum hefðu fleiri en Nicola Sturgeon fundið að leiðtogar fjarri höfuðborginni væru ekki hafðir með í ráðum. Það vanti samráðsvettvang og fólk sé búið að fá nóg, finnist farið með það eins og annars flokks borgara. Það hefur orðið trúnaðarbrestur og hann þarf að bæta. Boris Johnson forsætisráðherra ætti að huga að samráðsvettvangi og framtíð Bretlands í heild, sagði Gordon Brown.

Brown, jafn andstæður sjálfstæði Skotlands og hann er, vill heldur líta á ríkjaheildina en Skotland eitt og sér. Hætt við að sá boðskapur falli dauður niður í ranni Skoska þjóðarflokksins.