
Segir að mótmælendur í Hollandi komi úr ýmsum áttum
„Þetta eru mjög miklar óeirðir og dreifast víða um landið. Þetta er eiginlega í öllum borgum í Hollandi. Ég held að þetta séu ekki mjög stórir hópar en þeir hafa mjög mikil áhrif. Þeir eru mjög ofbeldisfullir og eru mjög eyðileggjandi. Þannig að ástandið er mjög alvarlegt,“ segir Sóley.
Hún segir að svo virðist sem fólkið sem mótmælir komi úr ýmsum áttum.
„Ég held að þessi hópur sé tiltölulega fjölbreyttur. Okkur hættir til að halda að þetta séu ungir atvinnulausir karlar. En mér sýnist af fjölmiðlaumfjöllun að þetta sé mun fjölbreyttari hópur en svo.“
Sóley segir að almenningur sem býr á þeim svæðum þar sem mest er mótmælt finnist sér ógnað. Mótmæli höfðu verið ráðlögð í Nijmegen, heimaborg Sóleyjar í gær, en þau fóru á nokkuð annan veg en til stóð.
„Það er svolítið krúttleg saga. Þar sem mótmælin áttu að vera, þar stóð borgarstjórinn sjálfur á torginu og beið eftir mótmælendum. Hann náði víst að tala til ansi marga þeirra og senda þá heim. Aðrir héldu annað til að halda áfram mótmælunum,“ segir Sóley.