Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rýma fyrir 83 íbúðum í Vesturbænum

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Undirbúningur að byggingu áttatíu og þriggja nýrra íbúða á Byko-reitnum til móts við JL-húsið í Vesturbæ Reykjavíkur er hafinn. Fyrstu íbúðirnar verða tilbúnar eftir um það bil tvö ár.

Á Byko-reitnum í Vesturbæ Reykjavíkur, sem einnig hefur verið kallaður Steindórsreiturinn, er verið að rífa hús sem hafa verið þar áratugum saman. Og í staðinn á að reisa þar fjölmargar íbúðir.

„Við erum að byrja hér uppbyggingu, sem er búin að vera í undirbúningi í talsverðan tíma, á 83 íbúðum á þessum frábæra stað hérna í Vesturbænum eða eldri miðbænum,“ segir Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns sem stendur að framkvæmdinni.

Fjórir til fimm milljarðar

Jónas Þór segir að skortur sé á nýjum íbúðum í Vesturbænum, og að eftirspurnin sé mikil. 

„Þetta verða í aðalatriðum tvær byggingar, íbúðarhús. Á boganum við hringtorgið á móti JL-húsinu verður aðalbyggingin upp á fimm hæðir. Og svo er inngarður hérna megin við okkur og þar tekur við bygging sem er svona L-laga og þar verða einhverjar 30 íbúðir. Og þetta er svona blanda af tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðum.“

Á jarðhæðinni verður atvinnuhúsnæði sem snýr að Hringbraut, og bílastæði í kjallaranum. Jónas Þór segir að heildarkostnaður verði fjórir til fimm milljarðar króna.

„Við eigum von á því, ef áætlanir ganga að byrja uppsteypu um páska, að þá verði fyrstu íbúðir tilbúnar í lok árs 2022 eða ársbyrjun 2023, og síðari hlutinn á miðju því ári,“ segir Jónas Þór.