Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ræða við AstraZeneca um bóluefnisrannsókn hér á landi

26.01.2021 - 10:53
FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Sóttvarnalæknir segist hafa rætt hugmyndina um bóluefnisrannsókn við lyfjafyrirtækið AstraZeneca. Ekki sé þó búið að gefa upp vonina um sambærilega rannsókn við Pfizer.

Viðræður standa enn yfir við Pfizer um að gera rannsókn á virkni bóluefnis hérlendis með því að bólusetja um 60% þjóðarinnar, síðast var rætt við forsvarsfólk fyrirtækisins í síðustu viku, að sögn Þórólfs. En sóttvarnayfirvöld hafa nefnt þessa hugmynd við fleiri fyrirtæki. „Við höfum rætt við AstraZeneca líka,“ segir Þórólfur.

Hvernig viðtökur fenguð þið frá þeim? „Þetta var ágætis samtal. Menn hafa áhuga en það er oft spurningin um hvort fyrirtækin hafi bóluefni til að láta í svona,“ segir hann. Bóluefnið frá AstraZeneca er ekki komið með markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu.

Þegar hefur verið samið um tæplega 14 þúsund skammta frá bóluefni AstraZeneca í febrúar, fái fyrirtækið markaðsleyfi fyrir bóluefnið í Evrópu. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Tafir eru á framleiðslunni hjá fyrirtækinu. Óttast er að fjödi skammta geti dregist saman um sextíu prósent.