Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nýr fóðurprammi kominn til Laxa fiskeldis

26.01.2021 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: Jens Garðar Helgason - Aðsend
12.000 tonna flutningaskip kom til Eskifjarðar í nótt með fóðurpramma sem fyrirtækið Laxar fiskeldi hefur leigt frá Noregi. Pramminn kemur í stað fóðurprammans Munins sem sökk í Reyðarfirði aðfaranótt 10. janúar.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa, segir að nýi pramminn verði tekinn í notkun við fóðrun í dag í kvíunum við Gripalda þar sem Muninn sökk. Þar hefur laxinn verið fóðraður með fóðurbyssum síðustu tvær vikur.

Hann segir líklegt að nú verði farið að huga að því að dæla olíu úr eldsneytistönkum prammans á botni Reyðarfjarðar. Um 10.000 lítrar eru um borð og hann segir að ekki hafi orðið vart við neinn olíuleka.

Einhver tími geti liðið þar til reynt verði að ná prammanum aftur á flot. Það þurfi að meta hvort hentugt sé að hreyfa við honum fyrr en aðstæður batni. Bæði varðandi birtu og veður, en það þurfi gott veður samfleytt í einhverja daga í þannig verkefni. „Veðurgluggarnir eru mjög stuttir þessa dagana,“ segir Jens Garðar.