Mynd: EPA-EFE - ANP

Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.
Moderna freistar þess að efla bóluefni sitt
26.01.2021 - 05:23
Lyfjafyrirtækið Moderna telur bóluefni sitt virka gegn nýjum afbrigðum kórónaveirunnar sem veldur COVID-19 en leitar þó leiða til að efla það, eftir að vísbendingar komu fram um að virkni þess gegn afbrigðinu sem kennt er við Suður-Afríku væri minni en gegn öðrum afbrigðum.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að í rannsóknum sem gerðar voru innan fyrirtækisins og hjá bandarísku heilbrigðisstofnuninni hafi bóluefnið reynst jafn vel gegn hinu svokallaða breska afbrigði kórónaveirunnar og fyrri afbrigðum.
Fyrstu niðurstöður bendi hins vegar til þess að virknin sé töluvert miklu minni gegn suður-afríska afbrigðinu. Þótt endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir, segir í tilkynningu Moderna, hafi þótt rétt að hefja þessa þróunarvinnu til að gæta fyllsta öryggis. Samtímis sé verið að kanna skilvirkni þess að bólusetja fólk þrívegis í stað þess að gefa tvo skammta eins og tíðkast hefur.