Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Málefni talmeinafræðinga verða skoðuð

26.01.2021 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Málefni nýútskrifaðra talmeinafræðinga sem ekki fá samning við Sjúkratryggingar Íslands eru til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu. Talmeinafræðingar segja 600 börn á biðlista eftir þjónustu og brýnt sé að bregðast skjótt við.

Félag talmeinafræðinga gagnrýnir að nýútskrifaðir talmeinafræðingar þurfi að vinna í tvö ár eftir útskrift áður en þeir komast á samning við Sjúkratryggingar Íslands sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar. Þetta sé að loknu háskólanámi og hálfs árs handleiðslu í framhaldinu. Þetta er samkvæmt ákvæði sem sett var inn í rammasamning Sjúkratrygginga við talmeinafræðinga árið 2017.

Kristín Th. Þórarinsdóttir formaður Félags talmeinafræðinga sagði í fréttum RÚV að búið væri að skrifa heilbrigðisráðuneytinu vegna málsins. Þessi staða væri mjög bagaleg því löng bið væri eftir þjónustu talmeinafræðinga. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir 34 heilbrigðisstéttir starfandi hér á landi og staða þeirra sé mismunandi, sömuleiðis hagsmunir, menntun og fleira. Allt slíkt þurfi að skoða vel þegar efnt sé til breytinga á fyrirkomulagi.

Formaður talmeinafræðinga segir mikilvægt að grípa snemma inn í hjá börnum sem séu með alvarleg frávik í framburði og málþroska. 600 börn séu á biðlista og brýnt sé að bregðast við og fá botn í málið. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tekur undir það.

„Það er alltaf brýnt að fá botn í öll mál og þetta er mál sem hefur líka verið á milli ríkis og sveitarfélaga og hefur verið eitt af þeim málefnum. Ég bara vil fullvissa fréttastofuna um það að þetta er á mínu borði eins og ýmis önnur verkefni.“
Og verður tekið á?
„Ég geri ráð fyrir því.“