Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kári:Getum haldið útbreiðslu breska afbrigðis í skefjum

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Aðferðir hérlendis til að halda smitum í lágmarki hafa dugað á meðan smit hafa blossað upp annars staðar, segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann segir að þótt breska afbrigði veirunnar reynist smitnæmara en önnur þá sé hægt að halda því í skefjum. 

Fá ef nokkur lönd í heiminum hafa búið við þann lúxus, ef svo má segja, í kórónuveirufaraldrinum að veirur úr öllum smitum sem greinst hafa, hafa verið raðgreindar. Og það hefur Íslensk erfðagreining gert.  Þannig hefur verið hægt að bera kennsl á ólíkar tegundir af veirunni og búa til skilning á því hvernig og hvert ólík afbrigði eða tegundir hafa dreift sér.  

Samtals hafa 43 greinst með hið stökkbreytta breska afbrigði veirunnar hérlendis, langflestir á landamærunum en sjö innanlands. . 

„Það eru núna alltaf að bætast við fleiri og fleiri en við engu að síður höfum ekki séð hana fara að breiðast út eins og eld í sinu. Hún virðist ekkert vera erfiðari að hemja heldur en önnur form af þessari veiru a.m.k. í okkar höndum,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Hann segir að þótt fjöldi gagna bendi til að sá möguleiki sé fyrir hendi að breska afbrigðið sé smitnæmara að þá sé ekki búið að sanna það á óyggjandi hátt þótt ýmislegt bendi í þá átt. Stjórnmálamenn túlki til dæmis skýrslur vísindamanna eins og breski forsætisráðherrann. 

„Þegar að þeir segja að sá möguleiki er fyrir hendi að hún sé smitnæmari að þá kemur hann fram og segir hún er smitnæmari.“

Hann segir að jafnvel þótt breska afbrigðið reyndist töluvert smitnæmara en önnur þá sé alveg hægt að hemja hana með því að setja hömlur á hegðun fólks. 

„Eins og stendur að þá eru þær aðferðir sem við höfum notað til þess að hemja hegðun fólks, hún hefur dugað til þess að koma smitum hér í algert lágmark meðan þetta er blossandi upp alls staðar í kringum okkur. Það er að segja við höfum mjög skynsamar ráðstafanir á landamærum sem hafa dugað til þess að halda þessu samfélagi nokkuð hreinu. Og koma þessa breska afbrigðis til landsins hefur ekki breytt því. Þannig að ég held að þrátt fyrir þetta breska afbrigði og þrátt fyrir það að svartsýnustu skoðanir manns á þessu breska afbrigði reyndust vera réttar þá kunnum við aðferðir sem eiga að gagnast, eiga að vera nægilega góðar til þess að halda honum í skefjum. Það er ósköp einfalt.“