Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hreindýr hlaupa fyrir bíla á Norðfjarðarvegi

Mynd með færslu
 Mynd: hreindýr
Óhöpp hafa hlotist af því að hreindýr hlaupa í veg fyrir bíla sem fara um Norðfjarðarveg við álverið í Reyðarfirði. Allstór hreindýrahjörð hefur haldið sig á þessum slóðum um nokkra hríð. Lögreglan á Austurlandi hvetur því ökumenn sem þarna eiga leið um til árverkni sérstakrar árverkni. 

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er greint frá því að hreindýr voru fyrst flutt til Íslands í fjórum hópum á árunum 1771 til 1787. Fyrstu dýrin voru sett á land í Vestmanneyjum en helmingur þeirra drapst fyrsta árið.

Þau sem eftir lifðu voru flutt upp á land en þrjú dýr lifðu þann flutning af. Hjörðin, sem aldrei varð stærri en sextán dýr, hvarf alveg eftir að Móðuharðindin skullu á árið 1783.

Næsta sending hreindýra var sett á land við Hafnarfjörð 1777 og hélt til á fjallasvæðum Reykjanesskagans en dýrunum fækkaði talsvert í áranna rás uns það síðasta sást við Kolviðarhól árið 1930.

Árið 1784 var 35 dýrum sleppt á Vaðlaheiði en undir lok aldarinnar voru þau orðin um 400 talsins. Á síðari hluta 19. aldar héldu dýrin sig á Melrakkasléttu, í Þistilfirði og á Langanesheiði.

Þau urðu flest um 2.000 en aðeins fáir tugir voru eftir um aldamótin 1900. Seinasti hópurinn var settur á land í Vopnafirði 1787 og dreifði sér víða um hálendi Austurlands og suðurfirðina, allt að Jökulsá í Lóni.

Hreindýr eiga nú hentuga sumar- og vetrarhaga austanlands en veiðar á þeim hafa verið stundaðar nánast alltaf. Þær eru leyfðar nú með takmörkunum en hreindýr eru ekki á válista spendýra á Íslandi þar sem þau teljast vera innflutt tegund.