Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Færeysk fyrirtæki stefna að sjálfbærni til framtíðar

epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Ellefu færeysk fyrirtæki hafa undirritað samkomulag þar sem þau hyggjast hafa frumkvæði um sjálfbærni til þriggja ára. Verkefnið gengur undir heitinu Burðardygt Vinnulív eða Sjálfbær fyrirtæki og verður stjórnað frá Vinnuhúsinu, skrifstofu færeyskra atvinnurekenda og fyrirtækjarekenda.

Ætlun fyrirtækjanna er að nálgast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, ekki síst í loftslagsmálum. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að sameiginleg áætlun þess efnis verði kynnt síðar á árinu.

Jafnframt sé ætlunin að horfast í augu við þær áskoranir sem þau standi frammi fyrir. Regin Jacobsen, framkvæmdastjóri laxeldisfyrirtækisins Bakkafrosts, segist vonglaður um að samvinnan skapi ný tækifæri og hraði sjálfbærri þróun í landinu.

Marita Rasmussen, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins Føroya Arbeiðsgevarafelags, er þeirrar skoðunar að frumkvæði fyrirtækjanna sé mikilvægt í ljósi þeirra gríðarmiklu breytinga sem orðið hafi í umhverfis- og efnahagsumhverfi heimsins undanfarin ár.