Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum við hátíðlega athöfn í kvöld. Elísabet Kristín Jökulsdóttir fær verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkuldi. Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fá verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Sumarliði R. Ísleifsson fær verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.
Föðurmissir, ást, sorg og geðheilbrigði
Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur er sjálfsævisögulegt skáldverk. „Ég var búin að skrifa þessa sögu í 10 ár, alltaf að reyna að vita hvað gerðist og hvernig þetta var í laginu,“ sagði Elísabet í samtali við Egil Helgason í Kiljunni á RÚV skömmu eftir að bókin kom út. „Ég var að reyna að nota einhvern stíl, nota eitthvert form, búa til persónur, breyta nöfnum og breyta ekki nöfnum. Þangað til að einn daginn settist ég niður og fékk þessa hugmynd: Að segja hana bara eins og hún er ... Þá kom hún á nokkrum vikum. Ég sat bara og skrifaði og skrifaði í keng.“