Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Elísabet, Arndís, Hulda og Sumarliði verðlaunuð

Mynd með færslu
 Mynd: Lárus K. Ingason - FÍBÚT

Elísabet, Arndís, Hulda og Sumarliði verðlaunuð

26.01.2021 - 20:28

Höfundar

Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir, Hulda Sigrún Bjarnadóttir og Sumarliði R. Ísleifsson eru handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum við hátíðlega athöfn í kvöld. Elísabet Kristín Jökulsdóttir fær verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Aprílsólarkuldi. Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fá verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Sumarliði R. Ísleifsson fær verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.

Föðurmissir, ást, sorg og geðheilbrigði

Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur er sjálfsævisögulegt skáldverk. „Ég var búin að skrifa þessa sögu í 10 ár, alltaf að reyna að vita hvað gerðist og hvernig þetta var í laginu,“ sagði Elísabet í samtali við Egil Helgason í Kiljunni á RÚV skömmu eftir að bókin kom út. „Ég var að reyna að nota einhvern stíl, nota eitthvert form, búa til persónur, breyta nöfnum og breyta ekki nöfnum. Þangað til að einn daginn settist ég niður og fékk þessa hugmynd: Að segja hana bara eins og hún er ... Þá kom hún á nokkrum vikum. Ég sat bara og skrifaði og skrifaði í keng.“

Mynd: RÚV / RÚV
Elísabet Jökulsdóttir í Kiljunni.

Í umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda segir að í henni sé fjallað á tilfinningaríkan og ljóðrænan hátt um föðurmissi, ást, sorg og geðheilbrigði:

Þar segir Elísabet afar persónulega sögu byggða á brotum úr eigin ævi. Höfundur hefur gott vald á skáldsagnaforminu og nýtir það til hins ýtrasta. Þar fær ríkt myndmál og næmni sem einkennt hefur ljóðagerð Elísabetar að njóta sín vel og blæbrigðaríkur textinn leiðir lesandann óvænta en hrífandi leið í gegnum átakanlega sögu. Skáldævisaga Elísabetar er sérlega athyglisverð viðbót í þeirri tiltölulega nýskilgreindu bókmenntategund.

Aðalhvatinn var að hafa gaman

„Við lásum um blokk í Alaska, í bæ sem heitir Whittier, þar sem eiginlega allir íbúar búa saman í risastórri blokk. Okkur fannst þetta skemmtilegt sögusvið og fórum að hugsa hvernig væri hægt að máta sig  við það,“ sagði Arndís Þórarinsdóttir í samtali við Jórunni Sigurðardóttur um Blokkina á heimsenda í Orðum um bækur á Rás 1. „Er skemmtilegra að skrifa um einhvern sem hefur alist upp í blokkinni? Eða viljum við láta einhvern nýjan koma inn í fastnjörvað kerfi? Það var náttúrulega skemmtilegra en það dugar ekki að láta einhvern bara laga sig að kerfinu. Það þarf meira uppbrot og þannig kom þessi glæpaþráður inn í. Okkar hvati var alltaf að hafa gaman. Við vorum fyrst og fremst að skrifa fyrir okkur sjálfar.“

Mynd: - / Mál og menning
Arndís Þórarinsdóttir í Orðum um bækur.

Í umsögn dómnefndar segir að Blokkin á heimsenda sé athyglisverð bók þar sem unnið er skemmtilega úr frumlegri hugmynd:

Blokkin á heimsenda er afar athyglisverð bók þar sem unnið er skemmtilega úr mjög frumlegri hugmynd. Frásögnin er áreynslulaus og á köflum bráðfyndin þótt mikilvægi samheldni og vináttu séu meginstef. Sagan er í vissum skilningi ævintýraleg og sýna höfundar mikla hugmyndaauðgi, en þó eru aðstæðurnar ekki óhugsandi og persónurnar eru bæði aðgengilegar og breyskar. Deilt er með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda og loftslagsváin er alltumlykjandi, án þess þó að þeim boðskap sé þröngvað upp á lesendur. Frásagnargleðin skín í gegn og sagan hefur burði til að heilla lesendur á öllum aldri.

Erfitt að sjá sjálfan sig nema í samanburði við aðra

„Ég er fyrst og fremst að skoða hugmyndir,“ sagði Sumarliði R. Ísleifsson í viðtali við Þröst Helgason í þættinum Svona er þetta í desember 2020. „Ég er að skoða það hvernig umheimurinn lítur á þessi tvö lönd. Af hverju skiptir það máli? Þegar ég byrjaði á þessu fyrir einhverjum áratugum síðan, þegar ég fer að skoða ákveðna anga af þessu, þá held ég að leiðin að þessu hafi verið sú að reyna að átta sig á því af hverju við erum eins og við erum. Hvernig við bregðumst við. Eitt af því sem skiptir máli í því samhengi er hvernig umheimurinn lítur á okkur. Það er eiginlega inngangurinn að þessu. Ég held að það sé erfitt að sjá sjálfan sig nema með því að bera sig saman við aðra. Við verðum að hafa eitthvað viðmið. Það er ástæðan fyrir því að ég fer að kanna þetta á sínum tíma.“

Mynd: - / Sögufélag
Sumarliði R. Ísleifsson í Svona er þetta.

Í umsögn dómnefndar um Í fjarska norðursins segir að í henni takist Sumarliða að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á aðgengilegan og skýran hátt:

Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Einar Örn Stefánsson, Hrund Þórsdóttir,  Jóhannes Ólafsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti samkomuna sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar