Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Efni í stærri skriðu í skriðusári en féll í desember

26.01.2021 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Sérfræðingar Veðurstofunnar segja ljóst að nýtt hættumat á Seyðisfirði muni áfram sýna umtalsverða skriðuhættu á helstu svæðum og því geti stjórnvöld haft þá staðreynd til hliðsjónar í sinni ákvarðanatöku um varnir og næstu skref. Efni sé í stórar skriður í skriðusárinu, jafnvel stærri en féll í desember.

Byggðaráð Múlaþings vill að vinnu á grunnmati á Seyðisfirði verði hraðað svo hægt sé að taka ákvörðun um húsin sem standa undir skriðusárinu. Sveitarstjóri Múlaþings segir að von sé á frummatsskýrslu um áframhaldandi skriðuhættu frá verkfræðistofunni Eflu í dag eða á morgun.

Hættan minnki ekki við nýtt hættumat

Allt að fimm íbúðarhús gætu verið óíbúðarhæf utan við stóru skriðuna. Veðurstofan hefur skilað sveitarfélaginu bráðabirgðahættumati á skriðusvæðinu í minnisblaði. Þar segir að hætta á helstu svæðum sé áfram talin mjög mikil og langt yfir því sem talið er viðunandi í hættumatsreglugerð. Endurskoðað hættumat á að liggja fyrir síðar á þessu ári. En í minnisblaðinu segir að ólíklegt hættan minnki við þá endurskoðun og sú staðreynd geti þjónað sem grundvöllur ýmissa ákvarðana sem stjórnvöld þurfa að taka þó formlegt endurskoðað hættumat liggi ekki fyrir. Aðgerðir stjórnvalda hafa til þessa miðast við að byggja varnarvirki eða flutning byggðar.

Meiri hætta en áður í nágrenni skriðu

Í minnisblaðinu segir að í hlíðinni milli Stöðvalækjar og Búðarár sé meiri hætta en áður á skriðuföllum. Stór fleki er í skriðusárinu sem hljóp ekki fram, sem segir í hættumatinu að sé nægilegt efni í stóra skriðu, jafnvel töluvert stærri en þá sem féll í desember. Líkindareikningar benda til að fari efnið af stað, fari það um áhrifasvæði skriðunnar sem er þegar fallin en leiti líka í farveg Stöðvalækjar og skapi því hættu á svæðinu utan hans. 

Náttúrulegar varnir við Múla

Húsin við Múla, þar sem rýmingu var aflétt í gær, standa á aurkeilu sem byggst hefur upp úr endurteknum skriðuföllum niður Búðará, sem veitir nokkurra vörn og beinir meginstraumi flóða sitthvoru megin við Múlann. Í stóru skriðunni féll hluti efnisins í Botnabrún ofan Múlans fram en í minnisblaði Veðurstofunnar er enn eftir efni sem nægir í stórar skriður. Líkindareikningar sem hafa verið gerðir eftir að stóra skriðan féll eru ekki nógu nákvæmir til að skera úr um hvort C-hættulínan færist niður fyrir byggðina. Húsin eru á B-svæði samkvæmt núgildandi hættumati.

Fréttin hefur verið uppfærð.