Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bíða á göngum eftir að komast í spítalarúm

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Undanfarna viku hafa um 20 beðið á hverjum degi á bráðamóttöku Landspítala eftir að komast inn á ýmsar legudeildir spítalans eftir að hafa lokið meðferð á bráðamóttökunni. Alltaf þurfa einhverjir að liggja á göngum og það leiðir til þess að sóttvarnir eru ekki eins og best verður á kosið, að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar yfirlæknis bráðalækninga á Landspítalanum.

„Það er þröngt hjá okkur alla daga,“ segir Jón Magnús um stöðuna á deildinni. „Það er ekki vegna þess að komum hafi fjölgað, heldur er það vegna tafar á því að sjúklingar bráðamóttöku geti lagst inn á þær deildir spítalans sem þeir þurfa að komast á. Það leiðir meðal annars til þess að fólk þarf að liggja á göngum og að þeir sem leita á bráðamóttöku þurfa að bíða lengur eftir að fá aðstoð.“

Á Landspítala liggja nú 85 aldraðir sem hafa fengið færni- og heilsumat og bíða þess að komast á hjúkrunarheimili eða í önnur úrræði sem henta betur þörfum þessa hóps. Af þessum 85 eru 38 í svokölluðu bráðaleguplássi sem er ætlað sjúklingum í virkri meðferð og það eru slík pláss sem fólkið sem liggur á bráðamóttöku bíður eftir.

Meðalbiðtími sjúklinga á bráðamóttöku er um 16 klukkutímar. „Það eru alltaf einhverjir sem þurfa, því miður, að liggja á göngum bráðamóttöku,“ segir Jón Magnús. „Og það leiðir til þess að sóttvarnir eru ekki eins og best verður á kosið. Okkur hefur tekist að viðhalda lágmarks sýkingavörnum, en þetta er auðvitað alls ekki eins og við myndum kjósa.“

Sjá einnig: Hættur eftir 25 ára starf - álagið hafði áhrif

Jón Magnús sagði nýverið upp störfum á Landspítalanum og í viðtali við fréttastofu fyrir skömmu sagðist hann hafa árum saman reynt að ná fram skipulagsbreytingum til að draga úr álagi á bráðamóttöku, án árangurs. Ástæða vistaskiptanna væri að hluta til það mikla álag sem ítrekað verður á bráðamóttökunni.