Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

17 hús á Seyðisfirði ónýt eða mikið skemmd

26.01.2021 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
39 hús á Seyðisfirði skemmdust við skriðuhrinuna fyrir jól. Þar af eru tólf ónýt, þetta er niðurstaða Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Fimm til viðbótar eru mikið skemmd.

Allt að 80 sentímetra lag af drullu og grjóti fór inn í nokkra kjallara í jaðri byggðarinnar. Fimm hús skemmdust mikið eða meira en 15% af brunabótamati og 22 hús minna. Heildartjón við skriðuföllin er metið á um og yfir milljarð.

Forsvarsfólk stofnunarinnar hefur verið meira og minna á Seyðisfirði frá áramótum að ræða við húseigendur og óháðir matsmenn metið tjónið.

Í gær var almannavarnastig lækkað úr hættustigi í óvissustig á Seyðisfirði. Rýmingu var aflétt á sjö húsum við Hafnargötu undir Múlanum. Fólkið sem í þeim býr hefur ekki fengið að vera heima í rúman mánuð eða síðan stóra skriðan féll fyrir jól.