Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Víða gripið til aðgerða á landamærum

25.01.2021 - 12:12
epa08713851 A passenger airplane lands at LaGuardia Airport in New York, New York, USA, 01 October 2020. Major US airlines, and their employees, are waiting to see if the United States congress will extend the Coronavirus Aid, Relief, and Economic Security (CARES) Act which was passed in the spring and provided payroll support to companies until 30 September 2020. The airline industry has suffered massive losses as a result of the coronavirus pandemic with large job losses looming including American Airlines projected to cut as many as 19,000 jobs and United Airlines potentially furloughing as many as 12,000 workers.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Flugvél kemur inn til lendingar á La Guardia-flugvelli í New York 1. október 2020. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bráðsmitandi afbrigði kórónuveirunnar, kennd við Bretland, Brasilíu og Suður-Afríku, vekja ugg og víða er gripið til ráðstafana á landamærum. Haft var eftir fulltrúa Hvíta hússins í Washington að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætlaði í dag að banna komur erlendra ríkisborgara frá fyrrnefndum löndum og stórum hluta Evrópu.

Biden, sem tók við embætti í síðustu viku, hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða vegna faraldursins, þar á meðal hert reglur um grímunotkun og gert það að skyldu að þeir sem koma til Bandaríkjanna fari í sóttkví. Í gær fór fjöldi greindra kórónuveirusmita í Bandaríkjunum yfir 25 milljónir.

Í Frakklandi eru þeir sem þangað koma með flugi eða skipum krafðir staðfestingar á því að þeir séu ekki smitaðir og í gær lokuðu Svíar landamærum sínum að Noregi vegna fjölgunar smita breska afbrigðis kórónuveirunnar í Ósló og nágrenni.

Þá tilkynnti Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í gær, að ferðir flugvéla til og frá landinu yrðu stöðvaðar í viku nema í undantekningartilvikum. Netanyahu sagði að þetta væri gert til að hindra að ný afbrigði bærust til landsins og tryggja betri árangur við bólusetningar við veirunni.

Fyrsta samfélagssmitið í meira en tvo mánuði greindist á Nýja Sjálandi í fyrradag og í morgun var staðfest að það væri hið suðurafríska afbrigði veirunnar. Stjórnvöld í Ástralíu brugðust við með því að herða á ný reglur um komur fólks frá Nýja Sjálandi en slakað hafði verið á þeim vegna fárra smita.

Í gær urðu mikil mótmæli í Hollandi vegna ákvörðunar stjórnvalda að lengja útgöngubann um nætur frá níu að kvöldi til hálf fimm að morgni. Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda og voru tugir handteknir.