Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Treysta sér ekki til að fylgja reglum og loka ræktinni

25.01.2021 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Héraðsþreki, líkamsræktarstöð sem Múlaþing rekur, var skellt í lás á föstudag að tillögu almannavarnanefndar Austurlands. Sveitarstjórinn í Múlaþingi segir að starfsmenn stöðvarinnar hafi ekki treyst sér til að fylgja ströngum reglum um sóttvarnir.

Opnuðu stöðina fyrir viku

Þegar létt var á sóttvarnatakmörkunum 18. janúar var líkamsræktarstöðvum heimilað að opna á ný eftir langa lokun. Ýmsar hömlur eru þó á starfsemi stöðvanna. Þannig þurfa viðskiptavinir að skrá sig í tíma, sótthreinsa tæki eftir notkun og hafa fataskipti áður en komið er í húsið. Þessar reglur voru kynntar viðskiptavinum Héraðsþreks 15. janúar, þegar tilkynnt var um opnun. 

Vonast til að opna aftur í febrúar

Föstudaginn 22. janúar var tilkynnt að stöðinni hefði verið lokað aftur. „Að tillögu almannavarnanefndar Austurlands verður Héraðsþrek lokað frá og með laugardeginum 23. janúar. Við vonumst til að geta opnað í febrúar þegar frekari rýmkanir verða kynntar," segir í tilkynningu. Karen Erla Erlingsdóttir forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar vildi ekki tjá sig um lokunina þegar eftir því var leitað og vísaði á sveitarstjórn. 

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri í Múlaþingi, segir að almannavarnanefnd hafi farið gaumgæfilega yfir þær reglur sem í gildi eru og komist að þeirri niðurstöðu að best væri að loka. „Fólk treysti sér bara ekki til að fara eftir þessum reglum og því var ákveðið að loka. Menn töldu að það væri ekki heimilt að deila búnaði og því ekki annað hægt en að loka bara," segir Björn. 

En nú eru nær allar líkamsræktarstöðvar annars staðar á landinu opnar?

„Já þeir aðilar treysta sér greinilega til að fara eftir þessu."

Viðskiptavinir ósáttir

Ef marka má athugasemdir viðskiptavina undir tilkynningu stöðvarinnar á Facebook er töluverð óánægja meðal margra. Björg hefur skilning á því. „Já, já, ég skil það bara ósköp vel en þetta var niðurstaðan.“