Þarf ekki að greiða gjöld af matargjöf frá Spáni

25.01.2021 - 21:44
Morgunverðarborð.
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: grażyna suchecka - RGBStock
Yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi ákvörðun tollgæslustjóra sem gerði konu að greiða aðflutningsgjöld af matargjöf sem hún fékk frá móður sinni á Spáni. Konunni var gert að reiða fram fjögur þúsund krónur til að geta notið kræsinganna sem voru meðal annars reykt kjöt, ostar og ólífur.

Maturinn kom til landsins í júní á síðasta ári. Konan er frá Spáni en hefur verið búsett hér á landi um nokkurt skeið.  

Hún sætti sig ekki við ákvörðun tollgæslustjóra og sagði í kæru sinni til yfirskattanefndar að þetta hefði verið afmælisgjöf frá móður hennar. Hún ætti ekki að þurfa að borga nein gjöld enda væru tækifærisgjafir undanþegnar slíkum greiðslum. Þar að auki væri þetta hefðbundin gjöf í spænskri menningu.

Tollgæslustjóri krafðist þess að ákvörðun sín yrði staðfest. Það væri ekki hlutverk hans að skilgreina hvað væri tækifærisgjöf og hvað ekki.  Túlka yrði undantekningarákvæði þröngt og undir það væri ekki hægt að fella almennar neysluvörur sem fengjust hér á landi. Matvælin líkt og þau sem væru í afmælisgjöf til konunnar gætu því ekki talist tækifærisgjöf. 

Undir þessa túlkun tollgæslustjórans tók yfirskattanefnd ekki. Innihald sendingarinnar væri þess eðlis að ekki yrði annað séð en að þetta hefði verið venjuleg gjöf.  Féllst nefndin því á kröfu konunnar um að hún þyrfti ekki að greiða aðflutningsgjöld af matnum sem hún fékk í afmælisgjöf frá móður sinni á Spáni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV