Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sturgeon boðar lögmæta atkvæðagreiðslu um sjálfstæði

25.01.2021 - 04:14
epa05856899 Scotland's First Minister and the leader of the Scottish National Party, Nicola Sturgeon, addresses the audience at the Scottish National Party Spring Conference in the Aberdeen Exhibition and Conference Centre (AECC) in Aberdeen,
Nicola Sturgeon forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. Mynd: EPA
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, heitir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins fái hún og Skoski þjóðarflokkurinn umboð til þess í skosku þingkosningunum í maí. Efnt verði til atkvæðagreiðslunnar hvort sem ríkisstjórn Borisar Johnsons samþykkir það eða ekki. Áætlun þar að lútandi var kynnt á flokksþingi Skoska þjóðarflokksins í gær.

Í viðtali við BBC sagðist Sturgeon leggja áherslu á að tryggja lögmæti atkvæðagreiðslunnar. Þess vegna hyggist hún leita umboðs skosku þjóðarinnar í kosningunum í maí. Fái hún það umboð, sagði Sturgeon, mun hún efna til atkvæðagreiðslunnar og gefa fólki tækifæri til að segja sitt álit. „Það er lýðræði. Það snýst ekki um hvað ég vil eða hvað Boris Johnson vill.“

Johnson hefur ítrekað sagt að hann og stjórn hans muni ekki samþykkja aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands svo skömmu eftir hina fyrri. Skoski þjóðarflokkurinn er með 61 fulltrúa af 129 á skoska þinginu og gerir sér vonir um að ná hreinum meirihluta í kosningunum í maí. Þær vonir eru ekki óraunhæfar, ef marka má skoðanakannanir.