Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sofandi gestur á veitingastað og rusl á Vesturlandsvegi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöldi tilkynnt um að gestur á veitingastað í Neðra-Breiðholt svæfi þar í sæti sínu. Sá mun hafa verið nokkuð ölvaður.

Síðar um kvöldi var tilkynnt um gripdeildir unglinga í sama hverfi en lögregla afgreiddi það mál með aðkomu forráðamanna unga fólksins. Einnig var gert viðvart um þjófnað úr verslun í Háaleitishverfi í gærkvöldi.

Þar í hverfi var einnig tilkynnt um hávaða vegna samkvæmis rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Skömmu áður hafði farþegi leigubifreiðar neitað að greiða fargjald sitt að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt barst lögreglu tilkynning um iðnaðarmenn að störfum í Vesturbænum en hávaði frá verkum þeirra truflaði nætursvefn nágranna.

Laust fyrir átta í gærkvöldi var gert aðvart um drasl sem lá á Vesturlandsvegi ofan við Ártúnsbrekku. Það var sagt loka tveimur af þremur akreinum vegarins en hafði verið fjarlægt þegar lögregla kom á staðinn.

Umferðaróhapp varð í Háaleitishverfi síðdegis í gær. Flytja þurfti báðar bifreiðar á brott með dráttarbifreið enda báðar óökufærar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV