Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skrekkur eignast lítinn bróður á Suðurlandi í maí

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson - Aðsend

Skrekkur eignast lítinn bróður á Suðurlandi í maí

25.01.2021 - 11:52

Höfundar

Hæfileikakeppnin Skjálfti fæðist í Þorlákshöfn í vor. Skjálfti er sunnlensk útgáfa af Skrekk, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum Reykjavíkurborgar, sem hefur farið fram með góðum árangri í 30 ár.

„Í hvert sinn sem Skrekkur hefur verið haldinn og sköpunardýrð krakkanna birtist manni, þá hef ég sem listgreinakennari og landsbyggðakona hugsað með mér hvað það er í raun sorglegt að ungmenni í öðrum skólum á landinu fái ekki sama tækifæri til að fara í gegnum eins frábært verkefni og Skrekkur er,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir foreldri í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og viðburðarhaldari Skjálfta. Hún segir að það sé orðið löngu tímabært að aðrir skólar á landinu horfi til þess að innleiða sambærilega keppni á sínum svæðum.

„Með því að fara í gegnum svona langvinnt skapandi ferli, eins og krakkarnir þurfa að gera, þegar þau eru í undirbúningsvinnunni þá myndast svo mörg tækifæri til náms og þroska. Það er heilmikil vinna á bak við hvert atriði, allt frá því að móta hugmynd sem svo þarf að útfæra, æfa og hugsa um út frá ólíkum vinklum sviðslista og að lokum flytja á sviði þar sem allur aðbúnaður er til staðar eins og fyrir atvinnufólk,“ segir Ása Berglind. 

Tíu grunnskólar eru starfræktir í Árnesþingi og má hver þeirra senda eitt atriði í keppnina. Æfingaferlið getur þó verið krefjandi fyrir suma skóla þar sem miklar fjarlægðir eru milli barna en skólastjórnendur segja að þær áskoranir sem kunna að verða á veginum séu einfaldlega bara til þess að leysa þær.   

„Að sjálfsögðu myndast áskoranir þegar Skrekks-líkanið sem búið var til fyrir skóla Reykjavíkurborgar er innleitt á landsbyggðinni. Þar má nefna fjarlægðir á milli skóla, fjarlægðir barnanna sem eru að æfa sín atriði en búa sum hver í sveitum og nota skólabíl til að komast á milli heimilis og skóla og svo er auðvitað mikill munur á fjölda barna í unglingadeildum á landsbyggðinni. Í Skjálftanum eru til dæmis þátttökuskólarnir með unglingadeildir frá 12 krökkum og upp í 215. Það þýðir samt ekki að skólinn sem er með 12 manna unglingadeild eigi minni líkur á að vinna, alls ekki, því það fallega við þetta verkefni er að það er pláss fyrir alls konar atriði, í raun allt frá metnaðarfullum einleik og upp í 35 manna atriði þar sem leiklist, söngur og dans fara saman.  Báðar tegundir af atriðum og í raun allt þar á milli á rétt á sér,“ segir Ása Berglind. 

Keppnin fer fram í íþróttahúsi Þorlákshafnar sem verður breytt í glæsilegan menningarsal við þetta tilefni. UngRÚV tekur keppnina upp og miðlar á vef sínum.

Myndina af Ásu Berglindi tók Guðmundur Karl Sigurdórsson.