Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rafhlöður sem „breyta heiminum til hins betra“

Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Íslenska fyrirtækið Alor stefnir að því að breyta heiminum til hins betra. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýr framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Til stendur að framleiða umhverfisvænar rafhlöður, sem gætu til dæmis nýst til þess að bjarga heilu byggðarlögunum í rafmagnsleysi.

Fyrirtækið Alor var stofnað í mars í fyrra. Það hefur í samstarfi við Háskóla Íslands og spænskt fyrirtæki unnið að því að þróa grænar orkugeymslur, eða rafhlöður, sem verða meðal annars notaðar til að safna og geyma umframraforku sem framleidd er hér á landi.

Rafmagn fyrir heilt þorp

Til stendur að framleiða rafhlöðurnar úr áli sem er framleitt hér á landi. Þær munu ekki innihalda liþíum eins og flestar rafhlöður, en það er mengandi efni. Rafhlöðurnar geta orðið mjög stórar, jafnvel á við 40 feta gáma. Valgeir Þorvaldsson, stjórnarformaður Alor og stofnandi fyrirtækisins segir að hægt verði að nota búnaðinn í rafmagnsleysi í hvers kyns náttúruhamförum, eins og því sem varð í óveðrinu mikla á Norðurlandi fyrir rúmu ári.

„Það hefði verið hægt að stytta þennan erfiða tíma mjög mikið með svona lausn. Svona gámur getur haldið rafmagni í heilu þorpi í heilan dag ef út í það er farið,“ segir Valgeir.

Fyrirtækið hefur þegar gert samning við Landsnet sem gengur út á að rafhlöðurnar henti dreifikerfi fyrirtækisins. Þá verði hægt að leysa af hólmi varaaflstöðvar sem knúnar eru með mengandi orkugjöfum, til dæmis í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.

Alor hefur einnig gert samning við Norðursiglingu á Húsavík, um að gera tilraunir með að knýja hvalaskoðunarbáta með rafhlöðum fyrirtækisins. Valgeir segir að því fylgi margir kostir, ekki síst sá að með því verða bátarnir nánast hljóðlausir, sem sé gott þegar hvalaskoðun er annars vegar.

Þá segist Valgeir sjá fyrir sér að hægt verði að hlaða rafmagni inn á stóra gáma, og flytja þá þannig til meginlands Evrópu, og selja raforkuna þar.   

Draga úr kolefnisspori

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra, var nýverið ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

„Ég sé endalausa möguleika,“ segir Ragnheiður Elín. „Þetta er fyrirtæki sem er stofnað til að hraða orkuskiptum, fjarlægja skaðvalda úr umhverfinu og koma með nýjar lausnir. Þannig að þetta hefur áhrif á loftslagsmálin, þetta bætir líf fólks og hjálpar stjórnvöldum að ná markmiðum um losun og að draga úr kolefnisspori. Þannig að ég myndi segja að þetta sé fyrirtæki sem standi alfarið í því að breyta heiminum til hins betra.“

Framleiðsla er ekki hafin hér á landi, en Valgeir segir að til standi að hefja hana á allra næstu mánuðum.

„Við áttum ekki von á að þróunin yrði svona hröð og að okkur yrði ýtt svona hratt áfram,“ segir Valgeir. „Þannig að við erum að fara í það á næstu tveimur til þremur vikum að opna félagið fyrir nýjum fjárfestum. Þetta er eiginlega að springa miklu hraðar út en ég átti von á. Þannig að ég á fullt í fangi með að halda í skottið á þessu.“