Ólga og reiði hjá ESB vegna framgöngu AstraZeneca

epa08964675 European Union commissioner for Health, Stella Kyriakides gives a press statement on vaccine deliveries at the EU headquarters in Brussels on January 25, 2021.  EPA-EFE/JOHN THYS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP
Stíf fundarhöld eru fyrirhuguð í kvöld hjá fulltrúum Evrópusambandsins og lyfjafyrirtækisins AstraZeneca eftir að fréttir bárust af því um helgina að fyrirtækið gæti ekki staðið við gerða samninga um afhendingu bóluefnis. Mikil reiði hefur gripið um sig hjá Evrópusambandinu sem telur framgöngu lyfjafyrirtækisins óásættanlega.

Óttast er að lyfjafyrirtækið geti aðeins afhent helminginn af þeim 100 milljón skömmtum sem fyrirtækið hafði samið um að framleiða á fyrsta ársfjórðungi.  

Fréttirnar hafa vægast sagt farið illa í ráðamenn Evrópusambandsins sem hafa lofað því að 70 prósent allra fullorðinna verði búnir að fá bóluefni um mitt sumar.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók forstjóra AstraZeneca á teppið fyrr í dag á símafundi og kom því skýrt á framfæri að fyrirtækið yrði að standa við sitt. „Það var gott að geta rætt við von der Leyen og fyrirtækið gerir allt til að geta framleitt bóluefni handa Evrópu,“ var það eina sem fyrirtækið hafði að segja um þennan símafund.

Þessi hvössu viðbrögð má meðal annars rekja til þess að miklar vonir voru bundnar við bóluefni AstraZeneca og ESB veðjaði á að það yrði fyrst til að fá skilyrt markaðsleyfi sem síðan gekk ekki eftir.  Þá er aðeins vika síðan að lyfjafyrirtækið Pfizer tilkynnti að vegna breytinga á framleiðslu sinni þyrfti að draga úr afhendingu bóluefna á næstunni.

Staðan í faraldrinum á meginlandi Evrópu hefur líka sitt að segja þar sem mörg lönd eiga í miklum erfiðleikum með að hemja farsóttina og í Hollandi hafa brotist út óeirðir vegna aðgerða sem yfirvöld hafa gripið til.  

Fram kemur á vef Guardian að Evrópusambandið hafi aðeins náð að afhenda 2 bóluefnaskammta á hverja hundrað íbúa á meðan hlutfallið er 10 skammtar á hverja hundrað í Bretlandi. „Ný afhendingaráætlun AstraZeneca er ekki ásættanleg fyrir Evrópusambandið. Þau svör sem við höfum fengið eru ekki fullnægjandi og þess vegna ætlum við að funda í kvöld,“ sagði Stella Kyriakides, yfirmaður heilbrigðismála hjá ESB í sjónvarpsávarpi þar sem engum duldist að hún væri verulega ósátt við lyfjafyrirtækið. 

Hún sagði að eitt af því sem væri til skoðunar hjá Evrópusambandinu væri að fylgjast betur með hvernig útflutningi bóluefna væri háttað til landa utan Evrópusambandsins.  Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, er einn þeirra sem telur slíkt skynsamlegt.  Þessir hlutir yrðu að vera á hreinu til að hægt væri að tryggja að fyrirtækin væru að standa við gerða samninga. 

Tafir á framleiðslunni hjá AstraZeneca hafa áhrif á öll lönd sem eru í samfloti með Evrópusambandinu við kaup á bóluefnum. Ísland er þar ekki undanskilið.  Miðað við norska fjölmiðla og tölur sem þar hafa verið nefndar voru nærri 75 þúsund skammtar væntanlegir til landsins í febrúar. Vegna vandræðanna hjá AstraZeneca verða þeir ekki nema 13.800, samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV