Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ójöfnuður hefur aukist sem aldrei fyrr

25.01.2021 - 22:28
Heimilislaus manneskja í Róm á Ítalíu. - Mynd: EPA / EPA
Ójöfnuður eykst sem aldrei fyrr, samkvæmt skýrslu mannúðarsamtakanna Oxfam, sem kom út í dag. Það gæti tekið þau, sem búa við mesta fátækt í heiminum, heilan áratug að vinna sig út úr áhrifum Covid faraldursins.

Árlegur fundur alþjóða efnahagsráðsins hófst í dag. Oftast er hann haldinn í bænum Davos í Sviss en vegna faraldursins er hann í gegnum fjarfundarbúnað í þetta sinn. Þar hittast helstu stjórnmála- og viðskiptaleiðtogar heimsins. Tímasetning útgáfu á skýrslu Oxfam er því engin tilviljun.

„Við vitum að þúsund millarðamæringar endurheimtu tap sitt vegna faraldursins á innan við níu mánuðum. Fyrir milljónir fátækra i heiminum tekur það meira en áratug að komast í sömu stöðu og fyrir faraldurinn. Það er gríðarmikill munur og þessi ójöfnuður eykst,“ segir Gabriela Bucher, framkvæmdastjóri Oxfam á alþjóðavísu. 

Hún segir að til að snúa þróuninni við þurfi að breyta skattlagningu og safna nægum fjármunum til að geta verndað þau sem höllum fæti standa. Þá eigi ójöfnuður eftir að aukast í nær öllum ríkjum heims í faraldrinum og að aukningin sé meiri en nokkru sinni síðan mælingar hófust, fyrir hundrað árum.

„Í faraldrinum hafa tíu milljarðamæringar grætt hálfa billjón dala meðan hann hefur staðið yfir, sem dygði til að koma í veg fyrir að nokkur í heiminum hrektist í fátækt og einnig til að borga bóluefni fyrir alla,“ segir framkvæmdastjóri Oxfam.