Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Metaðsókn og bólusetningavottorðin komin á Heilsuveru

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Bólusetningavottorðin eru komin á Heilsuveru segir Ingi Steinar Ingason, sviðstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis. Metaðsókn var á Heilsuveru á síðasta ári. Þá notuð vefinn tæplega tvö hundruð þúsund manns og var farið þrisvar sinnum oftar á vefinn árið 2020 heldur en árið á undan.

September var metmánuður

Rætt var við Inga Steinar í Samfélaginu á Rás eitt

Notkun vefsíðunnar Heilsuveru hefur tvöfaldast á hverju ári frá því að hún var tekin í notkun árið 2015. Á síðasta ári voru öll met slegin. Þá fóru innskráningar úr 1,2 milljónum árið 2019 í tæplega 3,4 milljónir.

Og mun fleiri skrá sig inn nú en áður. Eitt hundrað níutíu og fimm þúsund manns notuðu síðuna árið 2020 en árið 2019 um hundrað tuttugu og þrjú þúsund. Árið þar áður, 2018, notuðu vefinn hátt í sjötíu og fimm þúsund manns.

Metið sem var slegið í september, þegar tæplega fimm hundruð þúsund innskráningar voru á vefinn, er það mesta sem hefur verið í einum mánuði. Það var þegar þriðja bylgja faraldursins var kominn af stað og fólk skráði sig í sýnatöku. Þá voru ansi mörg sýni tekin alveg upp í 5000 suma dagana. Menn fóru þá á Heilsuveru stundum tvisvar á dag til að skoða niðurstöður. 

Allar heilsugæslustöðvar tengdar við Heilsuveru

Fyrir utan það fer fólk á Heilsuveru til að endurnýja lyf,  bóka tíma hjá heimilislækni eða senda fyrirspurnir á lækninn sinn, ljósmóður eða þann sem er að sinna viðkomandi. Hægt er að hafa samband við allar heilsugæslustöðvar og sumar einkareknar sérfræðistöðvar og nú eru nokkrar deildir á Landspítalanum farnar að nota Heilsuveru til að sinna sjúklingum sínum sem ekki liggja inni á sjúkrahúsinu.

Heilsuvera er þannig orðin framlenging á heilsugæslustöðvum landsins, nokkurs konar tæki til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustunni sama hvar fólk er búsett á landinu.

Hægt er að bóka tíma hjá sumum sérgreinalæknum á Heilsuveru en öðrum ekki. Ingi Steinar segir að verið sé að þróa rafræna tilvísanagátt sem verði mögulega komin í gagnið í lok ársins og þá ætti að vera hægt að opna á alla sérfræðinga. 

Flestir hafa heyrt um Heilsuveru

Heilsuvera nýtur nokkurra vinsælda hjá landsmönnum ef marka má niðurstöður könnunar sem Gallup gerði fyrir Heilsuveru 18. nóvember til 3. desember. Úrtakið var 1500 manns og svöruðu tæp 60%. Niðurstaðan sýnir að 91% þekkti eða hafði heyrt um Heilsuveru. Tæplega 90% voru hlynnt aukinni rafrænni heilbrigðisþjónustu, 81% var mjög eða frekar ánægt með Heilsuveru og 78% voru sammála því að hún sparaði tíma og fjármuni.   

„Ég held að það séu allir, og sérstaklega núna í gegnum covid-fárið, séu allir búnir að sjá hvað þetta er tímasparandi og hversu mikil bæting á þjónustu það er að geta bara setið uppi í sófa á sunnudagskvöldi og beðið um endurnýjun á lyfinu sínu en þurfa ekki að muna eftir því að hringja korter yfir átta til að komast í biðröð í einhvern símatíma og missa svo af því og fá ekki lyfin sín fyrr en eftir tvo daga. “

Einn eldveggur, annar eldveggur og dulkóðun

Mikill áhugi er á heilbrigðsupplýsingum um heim allan. Stór tölvufyrirtæki eins og Google safna gífurlega miklum upplýsingum um fólk og það gera snjallúrin líka. Mörg dæmi eru um að þessi fyrirtæki reyni að kaupa sig inn í fyrirtæki sem hafa aðgang að heilbrigðisupplýsingum. Ingi Steinar segir að enginn hafi reynt að kaupa sig inn í Heilsuveru. Mjög skýr persónuverndarstefna sé þar og í gildi mjög skýr lög um sjúkraskrárgögn og heilbrigðisskrár. „Við erum alveg rosalega „paranoid“ með öryggið í Heilsuveru og reynum að tryggja það eins vel og við mögulega getum.“ Ekkert í rafheimum sé 100% öruggt  en öryggismálin séu í forgangi hjá Heilsuveru. Öryggisúttektir séu gerðar reglulega.  Auk þess ef einhver nái að brjótast inn á vefþjóninn sé hann ekki kominn í gögnin.  „Þau eru falin á bak við annan eldvegg og annan eldvegg og þetta er allt dulkóðað. Við segjum alltaf að hönnunarforsendan á Heilsuveru sé númer eitt og númer tvö og númer þrjú öryggi og svo hversu notendavæn hún er. Þetta verður bara að vera svona. Það er ekki hægt að gefa afslátt af þessu.“

Bólusetningavottorðin eru komin 

Þeir sem eru fullbólusettir, búnir að fá tvær bólusetningar, við Covid-19 geta nú farið inn í Heilsuveru og sótt bólusetningavottorð. Vottorðið staðfestir að viðkomandi hafi verið bólusettur og gefur upp hvaða bóluefni hann fékk, hvenær hann var bólusettur, hvaða lotunúmer var á bóluefninu og allt um bólusetninguna. „Þetta lítur svona svipað út og gamla gula bólusetningaskírteinið sem margir muna eftir en er náttúrlega orðið rafrænt og er bara pdf skjal sem maður getur bara sótt sér niður á sitt tæki.“  Bólusetningavottorðið er undirritað með rafrænni undirskrift og er ekki hægt að eiga við það án þess að skemma undirskriftina. „Þannig að það á ekki að vera hægt að taka vottorð frá einhverjum öðrum og gera það að sínu.“

Íslendingar vinni með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og eru í viðræðum við Evrópusambandið um viðurkenningu á vottorðunum milli landa. Stefnt er að því að á þeim verði strikamerki þar sem upplýsingarnar sem eru á vottorðinu eru dulkóðaðar. „Þannig að landamæravörður í Tyrklandi getur þá skannað kóðann og í tölvukerfinu hans kæmi þá upp Ingi Steinar Ingason bólusettur. Hann getur þá borið það saman við það sem stendur á vottorðinu og sannfærst þá um að þetta sé gilt vottorð.“   

Vilja tryggja að vottorðin verði viðurkennd

Ingi Steinar segist ekki vera bjartsýnn á að mörg lönd í heiminum ráði við að búa til svona vottorð á landsvísu eins og Íslendingar gera. Svona „sjúklingaportal“ eins og Heilsuvera er sem er fyrir alla íbúa landsins finnist ekki í mörgum löndum. „Það eru Ísland og held ég Ungverjaland sen eru einu löndin núna sem eru búin að gefa út að ef þú ert bólusettur og getur komið með bólusetningarvottorð að þá þurfir þú ekki að undirgangast þær sóttvarnaraðgerðir að fara í sóttkví eða prófanir eða slíkt. Þetta er ekki svona alger farmiði að þú getir farið þangað sem þú vilt.“  Nauðsynlegt sé fyrir fólk að athuga áður en það bókar ferðir hvort það sé í rauninni nóg að vera bólusettur og með vottorð. „Við munum reyna að tryggja eins og við getum að vottorðin okkar verði viðurkennd sem víðast með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og slíku og uppfylla þá allar þær kröfur sem eru í því en það er samt ekki þar með sagt í rauninni að þér verði hleypt inn í landið og þurfir ekki að fara í sóttkví og slíka hluti. Fólk mun þurfa að skoða það vel áður en það fer að bóka ferðir.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV