Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögregla skoðar upptökur vegna skota á Samfylkingarhús

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Lögregla skoðar nú hvort upptökur hafi náðst úr eftirlitsmyndavélum í grennd við skrifstofu Samfylkingarinnar í Sóltúni sem gætu varpað ljósi á skotgöt á rúðum skrifstofunnar. Þetta segir Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn stjórnmálaflokkanna ræða hvernig hægt sé að bregðast við þessu.

Starfsmenn skrifstofunnar urðu varir við skotgöt á gluggarúðunum þegar þeir mættu til starfa á föstudagsmorguninn og gerðu lögreglu þegar viðvart.

„Þetta er það sem rannsóknin beinist að núna, að kanna hvort þetta hafi náðst á upptöku í eftirlitsmyndavélum,“ segir Jóhann Karl. „Okkur hafa líka borist allnokkrar vísbendingar sem við erum að skoða.“

Jóhann Karl segir að einnig sé verið að kanna hugsanleg tengsl á milli þessa og þess að skotið hafi verið á skrifstofur annarra stjórnmálaflokka, en fréttastofa greindi frá því fyrir helgi að fyrir nokkru hefði verið skotið á Valhöll, þar sem skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eru og að árið 2019 hafi verið skotið á skrifstofur Pírata og Viðreisnar. Þá var einnig skotið á skrifstofur Pírata árið áður.

„Hugsanlega tengjast þessi mál, það er eitt af því sem við erum að einbeita okkur að núna í rannsókninni,“ segir Jóhann Karl.

Karen Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar segir að á skrifstofunni gangi starfsemin sinn  vanagang. Ekki sé búið að skipta um rúðurnar sem skotið var á. Hún segir að starfsmenn stjórnmálaflokkanna hafi rætt óformlega saman um viðbrögð við atburðum sem þessum og að hugsanlega verði ríkislögreglustjóra sent formlegt erindi í kjölfarið. „Þetta er ógn, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Karen.