Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvetja til að bátnum Blátindi verði bjargað frá förgun

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Ingi
Stjórn Hollvina Húna II á Akureyri og stjórn Hollvina Magna í Reykjavík skora á stjórn Minjastofnunar Íslands og framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja að falla frá því að farga bátnum Blátindi.

Frá þessu er greint í vefútgáfu Eyjafrétta. Blátindur er 45 rúmlesta vélknúinn eikarbátur sem smíðaður var í Dráttarbraut Vestmannaeyja 1947.

Helgi Máni Sigurðsson, formaður Sambands íslenskra sjóminjasafna, greinir frá því að Blátindur hafi verið gerður út frá Eyjum allt til 195 og eftir það frá ýmsum verstöðvum. Hann hefði um skeið verið notaður sem varðskip á Faxaflóa. Þá hafi hann verið búinn fallbyssu.

Báturinn var sóttur norður í land og fluttur til Vestmannaeyja árið 1993. Fimm árum síðar stóð til að farga honum en 2001 var stofnað áhugamannafélag um endurbyggingu hans.

Vel hafi verið staðið að endurbyggingu Blátinds, sem nú er friðaður, og var honum komið fyrir hjá Skansinum vorið 2018. Hann losnaði þaðan upp í miklu óveðri 14. febrúar 2020, slitnaði frá bryggju, sökk í höfninni og skemmdist mikið.

Mynd með færslu
 Mynd: Tigull.is - Tígull.is

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja nú í janúar kom fram að kostnaður við að koma Blátindi í sýningarhæft ástand að nýju sé ekki undir 100 milljónum króna og tvöfalt meira kunni að kosta að gera hann sjóhæfan.

Framkvæmda- og hafnarráð ákvað að óska eftir afstöðu Minjastofnunar til förgunar Blátinds en ekki þyki verjandi að setja svo mikið fé í endurbyggingu bátsins. Erfitt sé að fá efni til endurgerðar og þekking sé af skornum skammti.

Fulltrúi E-listans í ráðinu tók ekki afstöðu og kvaðst þurfa betri upplýsingar um hvað felist í kostnaði við endurbætur Blátinds. Kostnaður við förgun er sagður vera um fimm milljónir króna.

Í áskorun stjórnar Hollvina Húna II á Akureyri og stjórnar Hollvina Magna í Reykjavík segir að fullyrðing um vandkvæði við að útvega efnis og að þekking sé ekki til sé með öllu röng.

Besti kosturinn sé að gera bátinn haffæran og bent á að í Noregi séu skipasmíðastöðvar sem geri upp gömul tréskip en það geti tekið fimm til tíu ár. Þannig dreifist kostnaður við endurgerðina á langan tíma.

„Blátindur er síðasti báturinn sem enn er til frá þeirri blómlegu skipasmíði er var um langan tíma í Eyjum. Ef af förgun yrði er það óafturkræft skemmdarverk í verndun sögu skipasmíða í Eyjum og sögu Eyjanna,“ segir í áskoruninni. Bent er á að Blátindur sé friðaður og heyri undir Minjastofnun.