Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hættulegri hópar grípa gæsina þegar QAnon er úthýst

25.01.2021 - 13:26
Afleiðingarnar geta verið alvarlegar þegar samskiptamiðlar loka á breiðan hóp fólks sem hefur áhuga á samsæriskenningum, segir Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður. Hópurinn tvístrist og geti leitað í opinn faðm hættulegri öfgahópa.

Haustið 2020 tilkynntu Facebook og Instagram að lokað yrði á alla hópa og notendur sem tengdust samsæriskenningum sem kenndar eru við QAnon til að koma í veg fyrir að miðlarnir yrðu nýttir til að rugla kjósendur í ríminu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Samkvæmt Facebook hefur meira en 78.000 aðgöngum að bæði Facebook og Instagram verið eytt frá því í ágúst 2020 fyrir að brjóta nýjar reglur miðlanna um dreifingu samsæriskenninga. Auk þess hafi meira en 37.000 síðum, hópum og viðburðum verið eytt af Facebook frá því að reglurnar tóku í gildi.

epaselect epa08619158 A man holds a QAnon conspiracy flag while walking over the All Black Lives Matter mural in Hollywood, California, USA, 22 August 2020. A conspiracy by QAnon conspiracy theorists has circulated, without evidence, accusing...
 Mynd: CHRISTIAN MONTERROSA - EPA
Maður veifar QAnon-fána við mótmæli í Los Angeles.

Gunnar Hrafn segir í samtali við Fanneyju Birnu Jónsdóttur í Silfrinu á RÚV að sérfræðingar í öfgahópamyndun hafi varað við aðgerðum sem þessum. Þeir hafi bent á að það sé hættuleg þróun að loka á mjög breiðan hóp fólks sem hefur áhuga á þessum kenningum.

„Nú eru þeir komnir á sína eigin samfélagsmiðla, þar sem er minni ritskoðun og minna eftirlit. Þar eru nýnasistar og ennþá verri öfgahópar sem sjá sér leik á borði. Þarna er fólk sem hefur misst trú á kerfið. Trump er farinn og það hefur ekki hann til að lifa í gegnum. Þá er mjög auðvelt að sjá sér leik á borði sem fulltrúi ennþá meiri öfga og veiða þetta fólk yfir til sín.“

Hann segir að nú hafi hópurinn tvístrast. „Sumir eru ennþá að segja að Biden sé ekki í raun og veru forseti. Trump sé ennþá tæknilega forseti og herinn stjórni á bak við tjöldin. Sumir reyna að halda því til streitu á meðan aðrir vilja sjálfir setja af stað einhverjar breytingar. Fyrst það koma ekki breytingar að ofan þá gerum við eitthvað og tökum upp vopn, eins og Proud Boys og fleiri sem mæla fyrir beinni aðgerðum og ráðast inn í þinghúsið og framkalla þennan raunveruleika sinn með valdi ef hann er ekki að birtast þeim.“

Óræður hópur sem telur sig hafa höndlað sannleikann

Þeir sem réðust inn í þinghús Bandaríkjanna á dögunum tilheyra mörgum skyldum hópum sem hafa myndast á netinu, segir Gunnar Hrafn. „Þetta eru óræðari hópar af því að þetta er meira hugmyndafræði heldur en formleg samtök. Þetta er ekki eins og í gamla daga þegar kommúnistaflokkurinn í Bandaríkjunum var með lista yfir fólk sem væri í flokknum. Þetta er miklu óræðara, þú getur verið QAnon í dag og Proud Boy á morgun og eitthvað annað í millitíðinni.

Trump supporters gesture to U.S. Capitol Police in the hallway outside of the Senate chamber at the Capitol in Washington, Wednesday, Jan. 6, 2021. (AP Photo/Manuel Balce Ceneta)
 Mynd: Manuel Balce Ceneta - AP

„Þetta er fólk sem notar sömu miðla og meðtekur sömu ranghugmyndir í gegnum samfélagsmiðla. Það eina sem tengir þá er í raun og veru þessi reiði og að vera tilbúinn að trúa því að þeir séu hluti af lausninni, þeir séu hinir útvöldu, sem einkennir alla sértrúarsöfnuði frá upphafi, að þeir hafi höndlað sannleikann og sjái allt betur en meiri hluti samfélagsins og að það sé þeirra hlutverk að opna augu fólks.“

Niðurlægingin er sterkur hvati til að halda sér saman

Hann segir að Ísland sé alveg jafn útsett fyrir myndun slíkra hópa og önnur vestræn ríki en hafa verði í huga að fasismi birtist í þjóðbúningi hvers lands sem hann skýtur rótum í. „Á Íslandi mundi þetta alltaf snúast um íslenska þjóðernishyggju sem kraumar dálítið undir niðri hjá okkur vegna þess að við erum með þessa minnimáttarkennd.“

Umræðuhefðin, í jafn litlu samfélagi og það sem á Íslandi er, gefi ekki mikla von um að skoðanir á borð við þær sem dreifst hafa um Bandaríkin falli í grýttan jarðveg hér. „Fólk er tilbúið, sérstaklega á netmiðlum, að halda fram alveg ótrúlega rætnum lygum og ásökunum um nafngreint fólk í svona líka litlu samfélagi. Það eru margar hættur til staðar hérna sem vert er að benda á. Maður vonar að á endanum geri smæð samfélagsins að verkum að auðveldara sé að einangra þetta fólk og gera grín að því. Niðurlægingin af því að hafa rangt fyrir sér og vera álitinn vitleysingar af öllum þorra almennings er sterkur hvati til að halda sér saman. Ísland er útsett fyrir öllum sömu hættum og önnur vestræn samfélög, umræðan um innflytjendamál og íslam er oft mjög óvægin og pólaríseruð.“