Brown ómyrkur í máli
Gordon Brown var ómyrkur í máli í viðtali við breska ríkisútvarpið. Brown sagði að ef ekki er hlustað á héruð og þjóðir Bretlands gæti 300 ára sögu sameinaða konungdæmisins senn verið lokið. Vaxandi áhyggjur má heyra í Bretlandi vegna þess að sjálfstæðissinnum vex ásmegin í Skotlandi og á Norður-Írlandi fjölgar þeim sem vilja sameinast Írska lýðveldinu.
Óánægja Skota ógnar tilvist United Kingdom
Gordon Brown skrifaði grein í dagblaðið Telegraph í dag þar sem hann segir að óánægjan í Skotlandi sé svo mikil að hún ógni áframhaldandi tilvist sameina konungdæmisins, United Kingdom.
Sturgeon vill aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, vill efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði fái hún og Skoski þjóðarflokkurinn umboð til þess í skosku þingkosningunum í maí. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að stjórn sín samþykki aldrei slíka atkvæðagreiðslu. Sturgeon segir hann óttast úrslitin og að sjá vilja skosku þjóðarinnar. Gordon Brown segir að Boris Johnson eigi ekki að vera í útistöðum við leiðtoga héraða og þjóða Bretlands, hann eigi að sameina.