Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fólk á ferli með COVID-einkenni

Fundur almannavarna 25.1.21
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Hlutfall kórónuveirusmita á landamærunum er nú í kringum 1%, en var 0,01% síðasta haust. Þarna er hundraðfaldur munur og endurspeglar útbreiðslu faraldursins á alþjóðavísu. Dæmi eru um að fólk með einkenni kórónuveirusmits sé á ferli og virði þannig ekki sóttvarnareglur. Sóttvarnalæknir er bjartsýnn á að samningar náist við lyfjaframleiðandann Pfizer um bóluefnisrannsókn hér á landi og segir ekki tímabært að aflýsa mannamótum í sumar.

Ekki hefur verið sýnt fram á að breska afbrigði veirunnar sé hættulegra þó það sé meira smitandi, óvíst er hvort það eigi við um suður-afríska og brasilísku afbrigðin. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna og ríkislögreglustjóra í morgun.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum sagði á fundinum að hann vissi af nýlegum dæmum þess að fólk hefði verið á ferð og sinnt sínum daglegu störfum á meðan það hefði verið með einkenni kórónuveirusmits.  Þá væru vísbendingar um að fólk væri að slaka meira á en yfirvöldum þætti tilefni vera til, meira væri um að fólk væri að hittast í litlum og stórum hópum. Áfram þyrfti að fara varlega og forðast óþarfar hópamyndanir.

Alma D. Möller landlæknir sagði að fjölgun smita og dauðsfalla væri að sprengja heilbrigðiskerfi margra landa og það mætti að hluta rekja til nýrra afbrigða veirunnar, þess breska, suður-afríska og brasilíska. Suður-afríska afbrigðið hefði greinst í tíu löndum í Evrópu, þar með talin væru öll hin Norðurlöndin. Brasilíska afbrigðið væri útbreitt á Amazon-svæði Brasilíu og ylli miklu álagi á heilbrigðiskerfi landsins.

Alma sagði að Evrópska sóttvarnastofnunin hefði hug á að auka hlutfall raðgreininga, en hingað til hefðu 10-20% sýna í Noregi og Danmörku verið raðgreind. „Hér er 100% raðgreining,“ sagði Alma og sagði að Íslenskri erfðagreiningu yrði seint fullþakkað fyrir það.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að í þessari viku væri 1.200 skammta að vænta af bóluefni Moderna og 2.000 skammta frá Pfizer. Áfram yrðu aldraðir og framlínustarfsmenn í heilbrigðiskerfinu bólusettir. 

Hann sagðist bjartsýnn á að samkomulag næðist við lyfjaframleiðandann Pfizer um að hér á landi yrði gerð rannsókn á virkni bóluefnisins með því að bólusetja um 60% þjóðarinnar. Hann sagði að hugmyndir hefðu verið viðraðar við aðra lyfjaframleiðendur um svipað fyrirkomulag. „Það eru engir samningar eða samningaumleitanir í gangi,“ sagði Þórólfur. „Mér finnst óvissan vera það mikil í afhendingaráætluninni, mér finnst skynsamlegt að gefa ekki væntingar um hverja við getum verið búin að bólusetja fyrir lok marsmánaðar,“ sagði hann.

Þórólfur var spurður hvort tilefni væri til að aflýsa stórum mannfögnuðum í sumar. Hann svaraði því til að of snemmt væri að segja til um það. „Það eru það margir óvissuþættir, hvað við fáum mikið af bóluefni og hvað við verðum búin að bólusetja marga. Hver verður staða faraldursins, hvernig verður staðan á þessum nýju afbrigðum?“