Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir nú útkalli í Kaldaseli Seljahverfi í Breiðholti þar sem íbúðarhús er alelda að sögn varðstjóra.
Eldurinn í húsinu, sem er jarðhæð og ris, hefur verið slökktur að mestu leyti en slökkvilið glímir enn við eld í þaki, bæð innan- og utanfrá. Að sögn varðstjóra er tjónið mjög mikið. Allt tiltækt lið er enn á staðnum.
Vísir greindi fyrstur frá þessu. Varðstjóri segir í samtali við fréttastofu að að íbúi í húsinu hafi komist út af sjálfsdáðum. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Engin hætta var á að eldur bærist í nærliggjandi hús en tilkynning um eldinn barst klukkan 6:40.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hvetur íbúa hverfisins til að loka gluggum og hækka á ofnum vegna reyks sem leggur frá húsinu.
Á vef Strætó kemur fram Jafnaseli hefur verið lokað svo leið 3 og 4 geta ekki ekið Jaðarselið. Þeir aka Seljabraut, Seljaskóga og Hjallasel til að komast inn á leið.
Nánari fréttir verða fluttar af þessu þegar frekari upplýsingar fást.