Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Áhyggjuefni ef afhendingu bóluefnis seinkar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, segir það vissulega áhyggjuefni ef afhendingu bóluefnis seinkar, eins og líklega verði tilfellið hér á landi. Hins vegar sé seinkunin fyrst og fremst tilkomin vegna þess að verið sé að auka framleiðsluna mikið, og hún skili sér síðar á þessu ári.

Margar Evrópuþjóðir eru ósáttar við bóluefnaframleiðendur vegna tafa á afhendingu. Stjórnvöld á Ítalíu íhuga málsókn og Evrópusambandið þrýsti í dag á lyfjaframleiðandann AstraZeneca að standa við áætlanir. 

„Auðvitað er það alltaf áhyggjuefni ef það verður mikil seinkun á framleiðslu og afhendingu bóluefna,“ segir Ingileif. „En það er ýmislegt gott í þessu. Pfizer til dæmis, þegar þeir upplýstu um að þeir ætluðu að auka sína framleiðslugetu úr 1,3 milljörðum skammta á þessu ári, í 2 milljarða skammta, þá sögðu þeir að það yrði seinkun á meðan á þessari breytingu stæði. En að aukin framleiðsla eigi að vera komin í gagnið 15. febrúar. Þannig að þeir telja sig algjörlega ná þessu upp á fyrsta ársfjórðungi.“

Gæti seinkað hér

Þá segir Ingileif að svipuð staða sé uppi hjá Moderna. AstraZeneca sé ekki komið með leyfi frá Lyfjastofnun Evrópu fyrir sínu bóluefni, en von sé á því á allra næstu dögum. Þá sé Jansen komið í flýtimeðferð hjá Evrópusambandinu með sitt efni. 

„Og þeir reikna með að þurfa að gefa hverjum einstaklingi bara einn skammt og þar eigum við frátekna 235.000 skammta að mig minnir.“

Og það sparar helminginn að þurfa bara einn skammt?

„Já það verða helmingi fleiri. En vissulega er beðið eftir niðurstöðum úr þeirra rannsóknum sem eru gerðar á um 60.000 manns þar sem prófað er að gefa og kanna vernd af einum skammti og tveimur. Þannig að ef það gengur eftir, og þeir fá leyfi um eða fyrir miðjan febrúar, þá mun það gjörbreyta stöðunni. Þannig að við megum ekki bara horfa á þessi bóluefni sem búið er að samþykkja, við þurfum líka að horfa á þau sem við vitum að eru að koma. Þar með talið AstraZeneca sem er í rauninni búið að dagsetja.“

Ingileif segir að það sé skiljanlegt að það valdi þjóðum vonbrigðum, ef afhendingu bóluefna seinkar. Þær tafir verði hins vegar unnar upp fljótlega. Það sé þó líklegt að þessar tímabundnu tafir nái einnig hingað til lands.

„Við fáum okkar bóluefni í gegnum Svíþjóð og það hefur verið sagt að niðurskurðurinn komi jafnt út fyrir alla. Þannig að það gæti orðið einhver seinkun hjá okkur líka já,“ segir Ingileif.