Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

13.800 skammtar af bóluefni AstraZeneca koma í febrúar

25.01.2021 - 17:48
FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Ísland fær 13.800 skammta af bóluefni AstraZeneca í febrúar, gangi það eftir að Lyfjastofnun Evrópu afgreiði umsókn fyrirtækisins um skilyrt markaðsleyfi á föstudag. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Miðað við fréttir frá Noregi hefðu skammtarnir átt að vera nærri 75 þúsund en vandræði í framleiðslunni hjá AstraZeneca settu strik í þann reikning.

AstraZeneca tilkynnti á laugardag að fyrirtækið gæti ekki staðið við fyrstu afhendingaráætlun sína og að færri skömmtum yrði dreift á fyrsta ársfjórðungi.  Óttast er að fjöldi skammta geti dregist saman um sextíu prósent. 

Framkvæmdastjórnin þrýstir á lyfjafyrirtækin

Tilkynning AstraZeneca reyndist olía á eldinn í Evrópu sem hefur staðið í deilum við lyfjafyrirtækið Pfizer. Sem neyddist til að draga úr framleiðslu sinni um stundarsakir vegna breytinga í framleiðsluferlinu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er afar ósátt við  þróun mála og hefur eytt síðustu dögum í að þrýsta á stjórnendur AstraZeneca að standa við fyrirheit sín.

Framkvæmdastjórnin hefur meðal annars bent á að samið hafi verið snemma við AstraZeneca um fjármögnun rannsókna og kaup á bóluefni þess. Í minnisblaði Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, til velferðarnefndar Alþingis fyrr í þessum mánuði kom einmitt fram að lengi vel hefði verið talið að bóluefni AstraZeneca yrði það fyrsta til að fá markaðsleyfi í Evrópu.  Íslensk yfirvöld undirrituðu samning sinn við AstraZeneca um miðjan október.

Samdrátturinn hefur áhrif á Ísland

Þessi mikli samdráttur hjá AstraZeneca hefur áhrif á öll þau lönd sem fylgja Evrópusambandinu að máli í kaupum á bóluefnum og Ísland er þar ekki undanskilið. 

Þótt íslensk stjórnvöld hafi haldið spilunum þétt að sér og ekki gefið upp hvers væri að vænta frá AstraZeneca þegar leyfið fengist sendu norsk yfirvöld út töluvpóst til sveitarfélaga í lok janúar. Þar voru þau beðin um að undirbúa fjöldabólusetningu með bóluefninu frá AstraZeneca.  Von væri á 1,1 milljón skammta í næsta mánuði.

Ísland fær 6,8 prósent af því sem Norðmenn fá og því má áætla að hingað voru væntanlegir nærri 75 þúsund skammtar af bóluefni AstraZeneca í febrúar.  Sem hefði dugað til að bólusetja um 37 þúsund manns.

Norski heilbrigðisráðherrann dregur í land

Á vef NRK á föstudag var þessi upphaflega áætlun staðfest af heilbrigðisráðherra Noregs, þeir hefðu gert ráð fyrir 1,1 milljón skammta frá AstraZeneca í febrúar en skammtarnir yrðu aðeins 200 þúsund. 

Heilbrigðisráðuneytið segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að Ísland muni fá hlutfallslega sama magn og aðrar þjóðir sem eru aðilar að Evrópusamstarfi um bóluefnakaup. „Þá megi gera ráð fyrir að framleiðslugeta fyrirtækisins muni aukast strax í mars sem mun að sama skapi hafa áhrif á afhendingargetu fyrirtækisins,“ segir í svari ráðuneytisins.  

Alls hefur Ísland keypt 230 þúsund bóluefnaskammta af AstraZeneca sem dugar fyrir um 115 þúsund Íslendinga.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að von væri á 2.000 skömmtum frá Pfizer í vikunni og 1.200 skömmtum af bóluefni Moderna.   Miðað við þá dreifingaráætlun sem nú lægi fyrir væri von á bóluefni fyrir þrjátíu þúsund manns fyrir lok mars.  Inni í þeirri tölu voru ekki skammtarnir frá AstraZeneca.