
Veðurviðvaranir víða um land og vegir lokaðir
Minnkandi norðaustanátt í dag
Í dag verður minnkandi norðaustanátt, 8-15 m/s. Éljagangur á norðurhelmingi landsins, og eru því má áfram búast við slæmum akstursskilyrðum á þeim slóðum. Sunnan heiða verður hins vegar þurrt og víða bjart veður. Frost verður á bilinu 0 til 6 stig.
Á morgun má svo gera ráð fyrir norðlægri átt 5-13 m/s og éljum norðan- og austanlands, en í hugleiðingum veðurfræðings segir að enn sé talsverð óvissa í spánum fyrir suðvestanvert landið. „Því veldur lægðardrag sem myndast suðvestur af landinu í nótt, en líkön eru ósammála um hvort það nái inn á land með tilheyrandi ofankomu, eða hvort það haldi sig fjarri með þurru veðri. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Annað kvöld hvessir síðan af austri vestantil á landinu,“ segir þar.
Vegir víða lokaðir eða ófærir
Enn er vetrarfærð í flestum landshlutum en greiðfært með Suðurströndinni. Á norðanverðu landinu er víða blint ennþá og margir vegir lokaðir. Á Vesturlandi eru vegir ýmist ófærir eða lokaðir: svo sem á Bröttubrekku, Laxárdalsheiði og Holtavörðuheiði. Fjallvegir á Vestfjörðum eru ófærir: Þröskuldar, Klettháls og Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði, Flateyrarvegur, Eyrarhlíð í Skutulsfirði, Súðavíkurhlíð og Steingrímsfjarðarheiði.
Þá er sömuleiðis varað við erfiðum akstursskilyrðum á Norðurlandi. Hálka eða þæfingsfærð er í Húnavatnssýslum og lítið skyggni. Í Skagafirði er ýmist þungfært eða ófært og í Eyjafirði er þæfingur eða þungfært, blint og frekar erfið akstursskilyrði. Fjallvegir ýmis lokaðir eða ófærir. Það sama á við um Norðausturland og Austurland þar sem víða er skafrenningur eða stórhríð.