
Sjúkraflutningur í kafaldsbyl og ófærð
Í færslu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn segir að mjög slæmt veður hafi komið í veg fyrir að sjúkraflugvél gæti lent á Þórshöfn og Vopnafirði og því ekki annað í boði en að flytja sjúklinginn landleiðina. Þar sem veður og færð voru með versta móti var viðbúnaður með mesta móti.
Auk björgunarsveitarinnar Hafliða voru ræstar út björgunarsveitir á Raufarhöfn og Húsavík, sjúkrabíll frá Þórshöfn og Húsavík og snjómokstursmenn allt frá Þórshöfn til Akureyrar.
„Eftir hetjulega baráttu við ófærð og veður komumst við yfir Hófaskarðið þar sem björgunarsveitin Garðar og sjúkrabíll frá Húsavík tóku við sjúklingnum og komu honum til Akureyrar,“ segir í færslu Hafliðamanna. Þar segir enn fremur að stjórn sveitarinnar vilji koma á framfæri þökkum til allra sem tóku þátt í aðgerðinni. „Gott skipulag, samtal, samvinna og liðsheild gerði það að verkum að markmiðið náðist og getum við verið stolt af því:)“
Sjá má nokkur myndskeið frá svaðilförinni á Facebook-síðu Hafliða.