Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Metfjöldi flóttamanna til Kanaríeyja

24.01.2021 - 19:14
Erlent · Flóttamenn · Spánn · Evrópa
Bátur sem rak að landi með flóttamenn á Tenerife.
 Mynd: Snæfríður Ingadóttir - RÚV
Metfjöldi flóttamanna kom til Kanaríeyja á síðasta ári frá Afríku þar sem Evrópusambandið hefur lokað öðrum leiðum. Íslendingur á Tenerife óttast að þeir hafi litla möguleika á góðu lífi þar og stjórnmálafræðingur býst við að flestir þeirra verðir sendir aftur til síns heima. 

Um 22 þúsund flóttamenn komu til Kanaríeyja á síðasta ári, margfalt fleiri en árið áður. Flestir komu frá Vestur-Afríku til Gran Canaria en töluverður fjöldi einnig til Tenerife. Meðal annars rak bát á land þar skömmu eftir áramót með 47 flóttamenn innanborðs. Fjórir þeirra voru látnir.

Ástæðan fyrir þessum straumi er að flóttamennirnir sem hingað til hafa farið yfir Miðjarðarhafið komast nú síður þá leið. Annars vegar er eftirlitið meira við Miðjarðarhafið sjálft, og hins vegar hefur Evrópusambandið samið við Marokkó um að stöðva strauminn þar í gegn. Það hrekur flóttamennina til að reyna komast sjóleiðina til Kanaríeyja.

„Flóttamannastraumur er eins og vatnið, það finnur sér sinn farveg og þessar aðgerðir í Miðjarðarhafinu hafa orðið til þess að hrekja fólkið út á opið Atlanshafið. Þetta er reyndar miklu hættulegri leið, heldur en yfir Miðjarðarhafið,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur.

Einn af hverjum 16 sem reynir að fara þessa leið drukknar á leiðinni. 
En straumurinn skapar vanda fyrir yfirvöld á eyjunum, segir Halla Birgisdóttir, veitingamaður á Costa Adeje. „Fólkið hérna er að berjast við það að fá einhverja styrki eða einhverja hjálp. Það hefur misst vinnu og hefur lítið sem ekkert á milli handanna og er að berjast fyrir hverri evru. Ég hef áhyggjur af því að eyjarnar geti bara haldið utan um allan þennan fjölda flóttamanna.“

Halla telur flóttamennina ekki hafa áhrif á ferðamennskuna, en hún hefur áhyggjur af flóttamönnunum sjálfum. „Það er ekki auðvelt að fá vinnu hérna, það er mikið atvinnuleysi hérna. Ég er ekki að sjá þeir komist í vinnu hérna, hvað verður um þá.“

Eiríkur Bergmann tekur undir þetta. „Flestum er einfaldlega snúið við þannig að þeir sem að hætta sér á hafið hérna yfir í þessa miklu hættuför, hætta lífi sínu og svo framvegis. Flest það fólk endar einfaldlega á sama stað og ferðin hófst.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV