Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimila auknar loðnuveiðar eftir að villa kom í ljós

Mynd með færslu
 Mynd: Daði Ólafsson
Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út uppfærða veiðiráðgjöf um loðnuveiði. Stofnunin gaf út ráðgjöf upp á 54.200 tonn í fyrradag, en við endurútreikning kom í ljós villa og því hefur ráðgjöfin verið hækkuð í 61.000 tonn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun í dag.

„Við endurútreikninga loðnumælinga samkvæmt gæðaferlum Hafrannsóknastofnunar kom í ljós villa við úrvinnslu á bergmálsmælingum á stærð hrygningarstofns loðnu í vikunni sem hefur nú verið leiðrétt. Niðurstaða þeirrar mælingar hækkaði um 19 þúsund tonn, eða upp í 338 þúsund tonn. Þetta þýðir að leiðrétt loðnuráðgjöf um afla á vertíðinni 2020/21 er 61 þúsund tonn.Eins og fram hefur komið áður er grunnur ráðgjafarinnar mat á stærð hrygningarstofns loðnu sem er byggt á meðaltali tveggja mælinga. Annars vegar á niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og hins vegar á samanlögðum niðurstöðum tveggja bergmálsleiðangra í janúar,“ segir í tilkynningunni.

 

Ráðgjöfin byggir á meðaltali tveggja mælinga á stærð hrygningarstofns loðnu. Annarsvegar á niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og hinsvegar á samanlögðum niðurstöðum tveggja bergmálsleiðangra í janúar.

Fyrri mælingin í janúar var takmörkuð að því leiti að engar mælingar voru gerðar í Grænlandssundi sökum hafíss. Ennfremur var magn loðnu á austur hluta svæðisins langt undir því sem mældist í desember. Seinni mælingin í janúar var á afmörkuðu svæði úti fyrir Austfjörðum. 

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Saman minnka þessar mælingar óvissu í stofnmati og samkvæmt því leiðir þessi mæling til veiðiráðgjafar upp á 61.000  tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í desember.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV