Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Handteknir fyrir að kveikja í brúðu í líki Frederiksen

24.01.2021 - 16:35
Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Um eitt þúsund komu saman í Kaupmannahöfn í gærkvöldi til að mótmæla sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda í Danmörku. Þrír voru handteknir fyrir að brenna dúkku sem var í líki Mette Frederiksen, forsætisráðherra landsins.

Á dúkkunni var skilti sem á stóð að aflífa ætti forsætiráðherrann. Mennirnir voru allir ákærðir fyrir athæfið í dag. 

Forsprakkar mótmælanna í gær er hópur sem kallar sig Men in Black. Mótmælin hófust klukkan 18 að staðartíma og voru að mestu friðsamleg til að byrja með, segir í frétt DR. Er líða tók á kvöldið fór heldur að hitna í kolunum. Lögreglan hafði margoft skipað fólki að halda til síns heima en talaði fyrir daufum eyrum. Þegar hún að lokum tók til við að leysa mótmælin upp brást hluti mótmælenda illa við og svaraði með því að grýta laganna verði með ýmsu lauslegu sem hendi var næst.

Þá var stór brúða, með andliti Mette Frederiksen, forsætisráðherra, hengd upp og brennd. Á brúðunni var pappaskilti með textanum „Hun må og skal aflives" eða Það verður að taka hana af lífi og það verður gert. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV