Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ensk orð í slangurorðaforða unglinga hafa tvöfaldast

24.01.2021 - 20:14
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
„Fáðu þér eina smellý og chillaðu broski“ er heitið á meistararitgerð Ragnheiðar Jónsdóttur íslenskufræðings. Í ritgerðinni kannar hún ensk orð í slangri unglinga og ber saman við könnum sem gerð var fyrir tuttugu árum.

„Þessi orð hafa aukist mjög. Það er miklu meiri enska í slangurorðaforða unglinga í dag heldur en var þá og hefur í rauninni tvöfaldast,“ segir Ragnheiður.

Hún segir dægurmenningu veigamikinn þátt í þessari þróun. „Enska er náttúrulega ráðandi í þessari dægurmenningu sem er vinsæl hjá unglingum, í þáttum, bíómyndum og tónlist og svo framvegis.“

Óljóst er hvaða áhrif slanguryrðin hafa á framtíð íslenskunnar. „Það virðist eins og í gegnum tíðina hafi fólk almennt haft áhyggjur af unglingamáli og íslenskunni, að við séum að glata íslenskunni. Ég er ekkert viss um að við þurfum að hafa meiri áhyggjur núna heldur en áður. Ég held ekki,“ segir Ragnheiður.

Meðal þeirra orða sem unglingarnir nefndu oftast eru bae, sem þýðir kærasti eða kærasta, að chilla, sem þýðir að slaka á, að dm-a, það er að senda skilaboð, og að fá sér smellý, sem þýðir að reykja.

Eins og sést í myndbandinu hér að ofan hafa ekki allir tilteinkað sér þennan orðaforða.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV