
Egyptar hefja fjöldabólusetningu í dag
„Við hefjum bólusetningarherferð á morgun; heilbrigðisstarfsfólk verður bólusett fyrst, langveikt fólk næst og aldraðir í framhaldinu,“ sagði al-Sisi á stuttum fréttamannafundi í Port Said á laugardag. Fyrsta sendingin af Sinopharm-bóluefninu barst til Egyptalands í desember.
Framleiðendur segja það virka í 79 prósentum tilfella, sem er töluvert meira en bóluefnið frá AstraZeneca (70,4 prósent) en talsvert minna en bóluefnin frá Pfizer-BioNTech og Moderna (um 95 prósent).
Von á 40 milljónum bóluefnaskammta á næstunni
Hala Zayed, heilbrigðisráðherra Egyptalands, tilkynnti fyrr í mánuðinum að Egyptar ættu von á 40 milljónum skammta af bóluefni, mestmegnis frá AstraZeneca, í gegnum alþjóðlega Gavi/COVAX-bóluefnasamstarfið. Með þeim er ætlunin að bólusetja um 20 prósent egypsku þjóðarinnar.
Ríflega 160.000 manns hafa greinst með COVID-19 í Egyptalandi og um 8.850 dáið úr sjúkdómnum en Egyptar eru um 100 milljónir að tölu. Í frétt AFP segir að smitsjúkdómasérfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk telji að allt að tíu sinnum fleiri hafi smitast í landinu en þau hafi einfaldlega ekki fundist vegna gloppóttrar skimunar.