Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dansa og bánsa við týnda hústóna tíunda áratugarins

Mynd: Inspector Spacetime / Inspector Spacetime

Dansa og bánsa við týnda hústóna tíunda áratugarins

24.01.2021 - 12:58

Höfundar

Það er íronískt að hugsa til þess að helsti partíslagari síðasta árs á Íslandi hafi litið dagsins ljós í miðjum heimsfaraldri og þess vegna aldrei fengið að blómstra. Hvað sem er með hljómsveitinni Inspector Spacetime er sumarslagari sumarsins 2020 sem aldrei varð.

Hvað sem er er hreint og beint popp-house runnið lóðbeint undan rifjum mið-tíunda áratugarins, sem slær hvorki feilnótu né tilfinningu, lag sem flaggar ástinni skammarlaust útvortis því sveitn var og er að mestu leyti enn óhnjöskuð af stækkunargleri fjölmiðla og spegilmyndum menningarelítunnar. Lagið kom sem hlýr andvari og ferskur gegnumtrekkur í staðnað íslenskt popp og hipphopp-loftslag ársins 2020. Sveitina stofnuðu þrír krakkar úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í upphafi árs sem nýttu svo tímann vel í fyrstu bylgju COVID, og á einhvern undraverðan hátt náðu þau að kokka upp þá geigvænlega einföldu snilld Hvað sem er, eftir örstutt samstarf. Þú heyrðir það bara strax á fyrstu sekúndunni, á bassatrommunni, að hér var komin sveit sem batt hljóm sinn ekki sömu töktum og samferðarmenn hennar. Þunna trommusándið, gervilega brass-samplið og angurværi synþahljómurinn minnti á poppaða house-tónlist snemmtíunda áratugarins, og groddalega bassalínan er í allsvakalegri skuld við ódauðlega slagarann Show Me Love með Robin S.

„Ég myndi gera hvað sem er fyrir þig og þú veist það,“ er eina setning lagsins því það þarf ekki fleiri. Tjáningin er svo tær að engu orði er of- né vanaukið, hvers konar utanaðkomandi hljóð og flóknari setningaskipan yrðu aðskotahlutir í lagi sem gerir einn hlut, en gerir hann gríðarvel; við getum kallað það deprímeraða slagarann eða melankólíska danssmellinn, ljúfsáru ástarsorgina sem dansar ein úti í horni með tárin í augunum en missir samt aldrei úr bassatrommuslag.

Koddaslagarar í teppavirki

Nú í upphafi árs kom út fyrsta breiðskífa Inspector Spacetime, sem er samnefnd sveitinni, og strax í intróinu verður vart við áreynslulausan gáska sveitar sem tekur sig ekki of alvarlega, yfir groddalegu synþafönki kynna krakkarnir sig á heiðarlegan hátt; Við erum Inspector Spacetime. Næsta lag er líka hreint og beint, heitir einfaldlega „Dansa og bánsa“, og Inspector Spacetime elska að gera bæði yfir líflegum píanóhouse-hljómum, en um miðbikið brestur skyndilega á með óvæntu þverflautusólói.

Teppavirkið er lágstemmdur koddaslagari með hefðbundnari popplagauppbyggingu þar sem textinn sækir í naívisma og nostalgíu, bernskurómantík teppavirkja og náttfatapartía. Hitta mig er hins vegar hápunktur um miðbik plötunnar, harður danstaktur með helling af  útrunnum hljóðum, þar á meðal á TR-808-trommuheilinn  stjörnuleik. Efniðviðurinn er einfaldur, en sögumaðurinn biður sögustelpuna að hitta sig og beitir ýmsum brögðum, ekki síst stærir hann sig af því að geta eldað pasta og  hann kunni að dansa. Mér leiðist hið margþvælda hugtak einlægni í umfjöllun um popptónlist en látum okkur nægja að segja að hér vottar ekki fyrir rembingi, og það örlar ekki á unglingaveiki hjá þessum menntaskólakrökkum. „Viltu hittast, spjalla hanga, gæti verið gaman, gætum borðað góðan mat,“ syngur geðþekki unglingurinn, sem minnir eilítið á Daða Frey í krúttlegum fraseringunum.

Það seytlar leikgleði og ungæðislegur galsi út um sérhverja svitaholu plötunnar, en kannski hvergi jafn mikill og í SMB; lagi sem hefst á Tetris-legum hljómum áður en mannsrödd ryður sér til rúms og lýsir yfir staðfastlega: Blúbbdí-blúbbdí-blúbbdí-blúbb. Lagið valhoppar svo sína leið með trallandi kvenrödd og teiknimyndasynþum og er í síðasta fjórðungnum hleypt á skeið, þegar takturinn tvöfaldast og umbreytist í æsilegt drum and bass. Á síðara hluta plötunnar syngja þau svo angurværan óð til söguhetju leikfangasögunnar, Bósa Ljósárs.

Krúttin auka takthraðann

Í síðasta lagi plötunnar sem ber titil hljómsveitarinnar og plötunnar keyra þau svo allt í botn í strangheiðarlegri drum and bass-keyrslu. Þar hvíla þau eigin raddir en notast þess í stað við hljóðbút af rödd sem er klippt, snúið upp á og söxuð niður í búta, og endurtekur í sífellu Inspector Spacetime, hljóðbútur sem ég geri ráð fyrir að komi úr gamanþáttunum Community en þaðan tekur hljómsveitin nafn sitt.

Það er eitthvað mjög frískandi við hljóðheim og attitúd Inspector Spacetime sem bræða á áreynslulausan hátt saman hugmyndafræði og raddblæ krúttanna við dansvæna bassatrommu 120 sinnum á mínútu. Þau sækja stíft í stefnur sem ekki hafa þótt móðins í háa herrans tíð og eru kyrfilega staðsettar um miðjan tíunda áratuginn, nota bene nokkrum árum áður en liðsmenn sveitarinnar fæddust, eftir því sem ég kemst næst.

Dansgólfsheimt

Það er helst hústónlistin, sem fæddist í hommaklúbbum Chicago um miðjan níunda áratuginn en var farin að mjatlast inn í meginstrauminn í upphafi þess tíunda, sem er Inspector Spacetime hugleikinn. Þau dilla sér óhrædd í grunnum hljóðheimi hús-skotinnar popptónlistar snemm- til mið-tíunda áratugarins, við erum að tala um lög eins og áðurnefnt Show Me Love með Robin S eða unaðslega endurhljóðblöndun Todd Terry af smellinum Missing með Everything But the Girl.

Fyrsta og samnefnda plata Inspector Spacetime er stutt, laggóð, poppuð og góður fyrirboði um endurheimt dansgólfsins að Covidi loknu. Í myndbandinu við lagið Dansa og bánsa má sjá liðsfólk sveitarinnar í hömlulausum danstransi í leikfimisölum, listasöfnum, salernum og styttugarði Einars Jónssonar. Ég fer þess á leit við ykkur að þið leitið upp Inspector Spacetime á nálægri streymisveitu, ýtið á play, og gerið slíkt hið sama. Og ef þið leggið ekki í dans með öllum líkamanum, að þið í það minnsta kinkið kankvíslega kolli og sveiflið mjöðminni eilítið til vinstri við taktinn. Því að sitja grafkyrr undir fyrstu plötu Inspector Spacetime er líkamlegur ómöguleiki.

Tengdar fréttir

Tónlist

Andlát: Íslenskt rapp

Tónlist

Fegurðin í dauðadrukknu unglingapartíi