Hvað sem er er hreint og beint popp-house runnið lóðbeint undan rifjum mið-tíunda áratugarins, sem slær hvorki feilnótu né tilfinningu, lag sem flaggar ástinni skammarlaust útvortis því sveitn var og er að mestu leyti enn óhnjöskuð af stækkunargleri fjölmiðla og spegilmyndum menningarelítunnar. Lagið kom sem hlýr andvari og ferskur gegnumtrekkur í staðnað íslenskt popp og hipphopp-loftslag ársins 2020. Sveitina stofnuðu þrír krakkar úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í upphafi árs sem nýttu svo tímann vel í fyrstu bylgju COVID, og á einhvern undraverðan hátt náðu þau að kokka upp þá geigvænlega einföldu snilld Hvað sem er, eftir örstutt samstarf. Þú heyrðir það bara strax á fyrstu sekúndunni, á bassatrommunni, að hér var komin sveit sem batt hljóm sinn ekki sömu töktum og samferðarmenn hennar. Þunna trommusándið, gervilega brass-samplið og angurværi synþahljómurinn minnti á poppaða house-tónlist snemmtíunda áratugarins, og groddalega bassalínan er í allsvakalegri skuld við ódauðlega slagarann Show Me Love með Robin S.