
Vitað er að 22 námamenn lokuðust inni þegar sprenging varð í námagöngum djúpt í iðrum Hushan-námunnar hinn 10. janúar. Samband náðist fljótlega við 11 manna hóp sem var innilokaður á 580 metra dýpi og einn mann sem var fastur á öðrum stað, litlu ofar. Einn ellefumenninganna slasaðist alvarlega í sprengingunni og lést nokkru síðar.
Í nótt tókst að bjarga manninum sem lokaðist af einn og sér. Hann var afar veikburða eftir prísundina samkvæmt frétt CCTV og á myndum sem birtar voru af því þegar hann kom upp á yfirborðið virtist hann ófær um gang.
Sex bjargað í morgunsárið
Mat og drykk, lyfjum og öðrum nauðsynjum var komið til tíumenninganna á meðan björgunarlið lagði nótt við dag við að ryðja og bora göng svo bjarga mætti þeim upp á yfirborðið. Í morgunsárið að íslenskum tíma tókst svo að koma sex þeirra til bjargar og flytja þá upp á yfirborðið og standa vonir til þess að þeim fjórum félögum þeirra sem eftir eru verði líka bjargað von bráðar.
Talið er að einn námamaður til viðbótar sé lífs, um 100 metrum neðar í námunni. Vonir um að hinir níu sem saknað er séu enn lífs fara dvínandi. Ekkert lífsmark hefur borist frá þeim síðan sprengingin varð.
Fréttin var uppfærð klukkan 07.25, eftir að fregnir bárust af björgun sex námamanna til viðbótar þeim eina sem bjargað var í nótt.