
Bólusetningarhneyksli hrekur hershöfðingja frá völdum
Skaðar ímynd hersins
Margarita Robles, varnarmálaráðherra Spánar, krafði hershöfðingjann skýringa þegar fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði verið bólusettur. Í yfirlýsingu ráðuneytisins eftir afsögn hans segir ekki berum orðum að hann hafi verið bólusettur en það mátti þó lesa á milli línanna.
Þar segir að hershöfðinginn hafi „aldrei ætlað að notfæra sér óréttlætanleg forréttindi sem skaði ímynd hersins og vekja efasemdir um heiðarleika hersöfðingjans." Ennfremur segir að Villarayoa hafi tekið „ákvarðanir sem hann taldi réttar" en reyndust „skaða ímynd hersins í augum almennings."
Ekki sá eini sem troðist hefur fram fyrir röðina
Hershöfðinginn er ekki sá eini sem hefur nýtt sér stöðu sína til að flýta eigin bólusetningu. Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur fjöldi háttsettra herforingja og embættismanna gert hið sama, þótt enn eigi eftir að bólusetja stóran hluta framlínustarfsfólks, aldraðra og langveikra í fyrsta forgangshópi.
COVID-19 hefur óvíða valdið meiri hörmungum en á Spáni. Á fyrstu vikum og mánuðum faraldursins var Villaroya fulltrúi hersins á daglegum upplýsingafundum yfirvalda og lýsti því hvernig hermenn lögðu sitt af mörkum með því að þrífa hjúkrunarheimili, annast aldraða og sinna fleiri samfélagslega mikilvægum hlutverkum.