Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áföll og streita breyta því hvernig líkaminn virkar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimilislæknir segir alvarleg áföll í barnæsku geta haft langvarandi áhrif á hin ýmsu líffærakerfi og stytt lífslíkur fólks um allt að tíu til fimmtán ár. Rannsóknum á áhrifum áfalla og streitu á líkamlega heilsu hefur fleygt fram á síðustu tíu árum. 

Ekki bara áhrif á hegðun og bjargráð

Það hefur lengi verið þekkt að fólk undir andlegu álagi er líklegra til að borða óhollan mat, reykja eða misnota áfengi. Þannig grefur vanlíðanin óbeint undan líkamlegri heilsu. Nú hefur verið sýnt fram á að mikil streita og alvarleg áföll geta haft bein neikvæð áhrif á líkamann. Hugur og líkami er í raun eitt og það sama. „Í rauninni hefur langvarandi streita áhrif á nánast öll kerfi líkamans og þá erum við sérstaklega að tala um þá sem verða fyrir miklum áföllum í barnæsku á meðan kerfið er ennþá að mótast, til dæmis vanrækslu eða ofbeldi, þar sér maður mjög miklar breytingar á þroska heilans og þroska þess hvernig við gefum frá okkur boðefnin úr heilanum,“ segir Margrét Ólafía Tómasdóttir doktor í heimilislækningum. Áföll breyti líka aðeins genatjáningu fólks. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áhrif áfalla í æsku hafa mest verið rannsökuð.

Ekki bara þungavigtaráföll

Röskun á boðkerfum líkamans hefur slæm áhrif á mörg önnur, til dæmis ónæmiskerfið og hjarta- og æðakerfið. „Svo hafa nýrri rannsóknir sýnt að það eru ekki bara þessi þungavigtaráföll sem hafa áhrif, það að vera útundan, að upplifa ekki að það sé komið fram við mann af virðingu, að verða fyrir einelti, ná ekki að blómstra í lífinu eins og maður hefði viljað, allir þessir þættir hafa líka gífurleg áhrif á heilsuna okkar eða þróun heilsu.“

Geta stytt lífslíkur um 10-15 ár

Hún segir lækna lengi hafa haft þetta á tilfinningunni, að umhverfi og áföll hafi bein áhrif á líkamlega heilsu fólks. „Það voru þessir sjúklingar, með þykku sjúkraskrárnar,“ segir Margrét. Nú renni vísindin stoðum undir þetta hugboð læknanna.  

Það er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um hversu stóran þátt streita á í því að einhver fær heilablóðfall eða krabbamein. „En við erum að átta okkur á því betur og betur hversu stór áhættuþáttur þetta er og þá sjáum við að við erum í raun að ganga aðeins hraðar á líflínuna okkar,“ segir Margrét.  Rannsóknir bendi til þess að mjög alvarleg áföll geti stytt lífslíkur fólks um allt að tíu til fimmtán ár, þá geti áföll og streita orðið til þess að sjúkdómar sem fólk á á hættu að fá vegna ættarsögu, komi fyrr fram en ella.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grafík: Geir Ólafsson.

„Fólk kemur ekki út í lífið sem ónýtir einstaklingar“

En fortíðinni verður ekki breytt, fólk sem hefur átt erfiða æsku getur ekki breytt því og ekki heldur fólk sem hefur verið undir miklu álagi allan starfsferilinn. Ganga svona heilsufarsáhrif eitthvað til baka? „Já, það er hægt að breyta mjög miklu þannig að það er ekki hægt að ef við höfum orðið fyrir miklum áföllum eða erfiðleikum í æsku að við komum út í lífið sem ónýtir einstaklingar, alls ekki. Það að vinna með grunnvandamálin, breyta óhentugum bjargráðum sem við höfum tamið okkur vegna álags. Það getur skipt sköpum í því að bæta heilsu okkar og auka lífslíkur.“