Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Aðeins sextán dvelja í farsóttarhúsinu

24.01.2021 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Aðeins sextán dvelja nú í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg. Sex í sóttkví og tíu í einangrun, bæði íbúar hér á landi og ferðamenn. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður hússins, segir að svo fáir hafi ekki dvalið í húsinu síðan í sumar.

„Það er rosalega rólegt og vonandi heldur þetta svona áfram,“ segir Gylfi í samtali við fréttastofu. Þegar mest lét dvöldu 108 í húsinu, en það var í þriðju bylgju faraldursins.

„Nú sjáum við bara til, ef þetta helst svona þá verður alltaf minni og minni þörf fyrir svona húsnæði. En við erum svolítið hrædd um að febrúar verði vesen,“ segir hann.

Gylfi segir að upphaflega hafi aðeins verið gerður samningur um að starfrækja farsóttarhúsið í þrjá mánuði en samningurinn hafi alltaf verið framlengdur um 1-2 mánuði í einu. Nú sé í gildi samningur sem rennur út í lok febrúar. Þrátt fyrir að svo mjög hafi fækkaði í húsinu hafi starfsfólki ekki verið fækkað en upp á síðkastið hafi þó ekki verði þörf fyrir sjálfboðaliða.