Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfir tvö þúsund manns handteknir í Rússlandi

23.01.2021 - 19:14
Mynd: RÚV / RÚV
Yfir tvö þúsund manns voru handteknir í mótmælum í Rússlandi í dag þar sem krafist var frelsunar stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny. Eiginkona hans var þar á meðal. Rússar á Íslandi segja andstöðuna við stjórnvöld sterkari, en búast samt ekki við breytingum strax.

Navalny hvatti fólk til mótmæla í vikunni, eftir að hann hafði verið handtekinn við komuna til Rússlands. Og við því var brugðist í um 60 borgum í Rússlandi. Í Moskvu byrjaði lögreglan á handtökum löngu áður en mótmælin áttu að hefjast. Eftir því sem leið á urðu átökin harðari. Lögreglan beitti kylfum og handtökum og minnst eitt barn var meðal þeirra sem færðir voru í lögreglubíl.

„Ég er fylgjandi málfrelsi, og staðan með Navalny undirstrikar enn og aftur að í þessu landi gera stjórnvöld það sem þau vilja. Og ef við þegjum heldur það bara áfram endalaust.“ sagði Andrej Gorkiov, einn mótmælenda.

Margir úr stuðningshópi Alexei Navalny voru handteknir. Meðal þeirra var konan hans, Júlía Navalna. Lögmaður hennar fékk ekki að fara með og var ýtt út þegar hann ætlaði með henni inn í lögreglubílinn. Navalna sendi skilaboð um handtökuna af Instagram-síðu sinni. Þá var annar stuðningsmaður Navalny, Lyubov Sobol, handtekin í miðju sjónvarpsviðtali.

Óháð félagasamtök segja að yfir tvö þúsund manns hafi verið handteknir um allt landið. Lögreglan segir að fjögur þúsund manns hafi sótt mótmælin í Moskvu, en sjálfstæðir fjölmiðlar tala um 20-50 þúsund manns.

Mótmælt var víða um heim, meðal annars fyrir framan rússneska sendiráðið í Reykjavík. „Ég vona að mótmælin hafi betri áhrif á stöðuna og vona að Navalny verði frelsaður fljótlega, en það er auðvitað aðeins von,“ sagði Andrei Menshenin skipuleggjandi mótmælanna.

Zinaida Artsemovich sagðist mæta til að sína löndum sínum heima fyrir stuðning. „Við erum hluti af sögulegum viðburðum og þó að ekkert breytist strax hef ég trú á að það gerist með tímanum.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV