Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vissi að hún væri með krabbamein en greindist ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Lind Garðarsdóttir
„Konur eiga að geta treyst því að leghálssýnin séu skoðuð nógu vel,“ segir Hanna Lind Garðarsdóttir, sem greindist með leghálskrabbamein um miðjan nóvember eftir að kvensjúkdómalæknirinn hennar fann sepa í leghálsi sem var sendur til greiningar hjá Landspítalanum. Á sama tíma fann Leitarstöð Krabbameinsfélagsins ekkert óeðlilegt við leghálssýni úr Hönnu Lind.

Við nánari skoðun hjá Krabbameinsfélaginu, eftir að Hanna lét vita að hún hefði þá þegar greinst með krabbamein, fundust svo óeðlilegar frumur við jaðar sýnisins.  

Greindist fyrir algjöra tilviljun

Hanna segist hafa greinst með krabbamein fyrir algjöra tilviljun. Hún hafi ekki haft nein einkenni og aðeins pantað tíma hjá kvensjúkdómalækni til þess að láta fjarlægja hormónalykkjuna.  

„Læknirinn sér lítinn sepa sem hún sker af og sendir í greiningu. Ég bað hana líka um að taka leghálssýni og hún sendi það til Leitarstöðvarinnar eins og var gert þá. Ég átti samt ekki að fara í sýnatöku til Krabbameinsfélagsins fyrr en eftir ár,“ segir hún. 

Eftir að krabbameinsfrumur greindust við rannsókn á Landspítalanum var Hanna kölluð í blóðprufur og myndatökur, segulómum (MRI) og tölvusneiðmyndatöku (CT) til þess að læknar gætu ákvarðað næstu skref. Í framhaldinu fékk hún þær góðu fréttir að það hefði ekki fundist æxli. Hún ætti samt að fara í stóran keiluskurð og vonaði að hann væri endirinn á ferlinu. 

Leitarstöðin greindi fyrst ekkert óeðlilegt

Keiluskurðurinn var gerður í lok nóvember og gekk vel. Hanna segist hafa verið tiltölulega fljót að jafna sig og vissi að hún gæti átt von á niðurstöðum innan tveggja vikna.

Á meðan hún beið eftir niðurstöðum úr keiluskurðinum fékk hún tölvupóst frá Leitarstöðinni um að hennar biðu skilaboð á Ísland.is. Henni fannst hálffyndið að niðurstöðurnar þaðan væru að koma fyrst þá, eftir að hún hefði farið í alls konar rannsóknir og keiluskurð á spítalanum. Hún taldi sig vita hvaða niðurstöður biðu hennar. En þær voru ekki á þann veg sem hún bjóst við:   

„Ekkert óeðlilegt fannst við skimun fyrir leghálskrabbameini.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Lind Garðarsdóttir

Hún segist hafa lesið skilaboðin allavega fimm sinnum. „Maður hefur lesið sögur frá konum sem hafa lent í að fá vitlausa niðurstöðu og maður vissi að þetta væri ekki fullkomlega óskeikult. En ég hafði til dæmis aldrei greinst með frumubreytingar áður og hugsaði strax hvort ég hefði kannski lengi haft frumubreytingar sem alltaf hefðu farið fram hjá Leitarstöðinni,“ segir hún.  

Frumubreytingar sem hefðu átt að greinast

Hanna sendi strax tölvupóst  til Leitarstöðvarinnar og lét vita af því að hún hefði þá þegar greinst með krabbamein og niðurstaðan hlyti því að vera vitlaus.  

Leitarstöðin brást við með því að skoða sýnið betur og Hanna segist hafa fengið svar við tölvupóstinum þar sem kom fram að við frekari skoðun hefðu greinst óeðlilegar frumur á jaðri sýnisins, sem hefðu átt að greinast strax. Þá segir hún að í póstinum hafi komið fram að Leitarstöðinni þætti leitt að hafa yfirsést þetta.  

„Í raun og veru er það sem stingur mig í þessu ferli og þessum mistökum í greiningu hjá Leitarstöðinni að þau hafi greint óeðlilegar breytingar við endurskoðun á sýninu. Konur eiga að geta treyst á að sýnin sem eru tekin séu skoðuð vel og vandlega í fyrstu tilraun. Þetta á ekki að gerast. Sem betur fer var ég heppin að þetta seinkaði ekki greiningarferlinu í mínu tilviki en þetta er ótrúlega ótraustvekjandi,“ segir Hanna um mistök Leitarstöðvarinnar.

Reið yfir mistökum 

„Ef ég hefði ekki farið í skoðun hjá kvensjúkdómalækni, heldur beðið eftir næstu reglubundnu sýnatöku hjá Leitarstöðinni þá hefði ég ekki greinst strax,“ segir Hanna. Leitarstöðin hafi einnig tekið aftur til skoðunar sýni af henni frá því í reglubundinni skimun fyrir tveimur árum en þær niðurstöður stóðu óhaggaðar, þar greindust engar frumubreytingar.

„Ég var heppin að hafa farið í skoðun hjá kvensjúkdómalækni en reið yfir þessum mistökum hjá Leitarstöðinni,“ skrifar Hanna í færslu sem hún birti á Facebook í gærkvöldi.

Hefur nú nýlokið erfiðri aðgerð 

Niðurstöðurnar úr keiluskurðinum voru ekki þær sem Hanna vonaðist eftir. Það voru enn líkur á að krabbameinsfrumur hefðu dreift sér út fyrir leghálsinn og því þurfti Hanna að gangast undir útvíkkað legnám þar sem legið var tekið ásamt leghálsinum, eggjaleiðurum, vefjum í kring og eitlum báðum megin í grindarholi. 

„Þetta var áfall, mikið áfall og þarna í fyrsta sinn brotnaði ég alveg niður. Ég var búin að taka þetta á hnefanum fram að þessu. Við Óli erum heppin að eiga tvö yndisleg börn, ég er ánægð að við eignuðumst börn snemma en núna er verið að taka af okkur valmöguleikann á að eiga fleiri börn. Mig hefur alltaf langað í þrjú börn og því er þetta stór og sár biti að kyngja. Ég vildi samt fara í þessa aðgerð og það kom aldrei neitt annað til greina,“ skrifar Hanna í færslunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Lind Garðarsdóttir

Aðgerðin gekk vel. „Þann 21. janúar hringdi svo læknirinn í mig með bestu fréttir í heimi. Ég er krabbameinslaus, það fannst ekkert krabbamein í vefjum í kring, ekkert í eitlunum, ekkert í legi, ekkert! Krabbameinið var ekki búið að dreifa sér og var það allt farið, ég er læknuð. LÆKNUÐ!! Mig langaði að fara út og öskra þetta,“ skrifar Hanna á Facebook.

„Ég ætla að reyna að hætta að hugsa: Hvað ef?“ 

Núna eru níu dagar frá aðgerðinni og Hanna er að jafna sig. Hún segist búast við að það taki vikur og jafnvel einhverja mánuði fyrir hana að ná sér. Hún þakkar fyrir að krabbameinið hafi fundist snemma og verið skurðtækt.

Hún segist fegin að hafa, fyrir hálfgerða tilviljun, farið til kvensjúkdómalæknis í tæka tíð: „Hvað ef ég hefði ekki ákveðið að láta taka úr mér lykkjuna strax? Hvað ef? Hvað ef? Ég ætla að reyna að hætta að hugsa hvað ef?“  

Þótt hún sé fegin því að röng greining Krabbameinsfélagsins hafi ekki seinkað hennar greiningu segir hún að eftir standi spurningar: „Hversu oft hefur þetta gerst og hversu oft mun þetta gerast? En ég er fegin að heyra að það eigi að taka upp breytingar á greiningarkerfinu, þótt það sé greinilega töf á því,“ segir hún að lokum.

Ekki náðist í framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Íslands við vinnslu fréttarinnar.